139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:36]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði talið eðlilegra að hv. þm. Mörður Árnason notaði ræðutíma sinn í að útskýra stefnu Samfylkingarinnar í þessu máli frekar en að rangtúlka sjónarmið Sjálfstæðisflokksins vegna þess að stefna Samfylkingarinnar er, eins og komið hefur fram, ekki mjög skýr í málinu, ekki frekar en ráðherranna í ríkisstjórninni. Ég bendi á það að hæstv. innanríkisráðherra hefur lýst því yfir að hann muni ekki styðja þessa tillögu af þeirri ástæðu að með henni er ekki verið að hlíta dómi Hæstaréttar. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því sjónarmiði að með þessari tillögu, eftir að Hæstiréttur ógilti kosninguna til stjórnlagaþings, sé verið að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands eða eftir atvikum að hafa hana að engu. Það er ekki að ástæðulausu sem ég nefni þetta vegna þess að þetta er sú niðurstaða sem bæði lagaprófessorinn Róbert Spanó við Háskóla Íslands hefur lýst og sömuleiðis Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík.

Mig langar síðan í framhaldi af þessari spurningu að spyrja hv. þingmann — af því að mér finnst svarið við fyrri spurningunni svo augljóst, við þurfum í rauninni ekki að vera að rífast um það hvort verið sé að hafa niðurstöðu Hæstaréttar að engu eða verið að fara á svig við niðurstöðu hans — hvernig hann telur að alþingismenn, sem leggja þessa tillögu fram eða styðja hana, geta ætlast til þess að almenningur í landinu hlíti niðurstöðum æðsta dómstóls landsins ef þeir sjálfir ætla ekki að gera það í þessu máli. Hvaða staða er þá komin upp og telur hv. þingmaður að hún sé mjög æskileg?