139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:40]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get upplýst hv. þingmann um það að ástæðan fyrir því að allir 16 þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru sammála í þessu máli er sú að við viljum standa vörð um réttarkerfið í landinu. Við viljum hlíta niðurstöðum Hæstaréttar rétt eins og æðsti yfirmaður dómsmála á Íslandi, hæstv. innanríkisráðherra. Það er ástæðan fyrir því að við styðjum ekki þetta mál.

Við sættum okkur ekki við að því þjóðskipulagi sem við höfum búið við verði breytt á þann veg að stjórnmálamenn komist upp með að hlíta ekki niðurstöðum æðsta dómstóls landsins og hafi hann að engu þegar það hentar þeim. Það er það sem hefur komið fram í máli þeirra sem hafa mælt þessari tillögu bót, að ástæðan er sú, og því lýsti hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir í gær, að þeir vilja ekki láta Hæstarétt Íslands eyðileggja kosninguna til stjórnlagaþingsins. (Forseti hringir.) Vandinn við þá röksemdafærslu er sá að þegar Hæstiréttur komst að sinni niðurstöðu (Forseti hringir.) var hann að fara að lögum landsins. Það er hlutverk dómsins og það er líka hlutverk hv. alþingismanna.