139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefði farið öllu betur á því að sá þingmaður sem talaði síðast og virtist hafa einhverjar áhyggjur af því að umræður í þinginu minntu á ræðukeppni hefði notað ræðutíma sinn til að lýsa skoðun sinni á því máli sem hér liggur fyrir og rökstyðja afstöðu sína í stað þess að fara mörgum orðum um afstöðu annarra án þess að það væri byggt á öðru en hans eigin hugarórum. Um ræðuna að öðru leyti vil ég segja að hún hefði sómt sér ágætlega sem leiðaraskrif í Þjóðviljanum á sokkabandsárum hv. þingmanns fyrir 20, 30 árum, en hún átti voða lítið erindi í þessa umræðu og var ekki til þess fallin að styrkja þann málefnalega grundvöll sem tillagan sem er hér til umræðu byggir á.

Ég vil spyrja hv. þm. Mörð Árnason, sem er greinilega stuðningsmaður þessarar tillögu þó að ekki hafi kannski verið hægt að greina heita sannfæringu fyrir þeirri afstöðu í máli hans, hvort það veki honum ekki einhverjar áhyggjur að tillagan gengur eftir því sem hún verður best skilin út á það að láta eins og ákvörðun Hæstaréttar í ógildingarmálinu hafi aldrei átt sér stað. Allt yfirbragð málsins, allt innihald þess er með þeim hætti að gert er ráð fyrir að fyrirkomulag stjórnlagaráðs verði það sama og stjórnlagaþings átti að vera. Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi engar áhyggjur af því að verið sé (Forseti hringir.) að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar að þessu leyti.