139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:45]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður hefur ekki heyrt ræðu mína því að ég fór yfir það í fyrri hluta hennar hvaða álit ég hef á málinu, hvaða afstöðu ég hefði tekið áður en Icesave-málið kom til, hvað ég hefði talið heppilegast í þessum efnum. Icesave-málið breytti þessari niðurstöðu og ekki síst sú afstaða Sjálfstæðisflokksins, hvar sem hún varð til, í Hádegismóum, Valhöll eða í þingflokksherberginu, að standa sérstaklega á móti því að fara þá leið sem ég hefði þá talið eðlilegasta þó að hún hafi að sjálfsögðu ekki verið heppileg með öllum hætti.

Að þessu loknu, að þessu slepptu, þegar í ljós kom að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að þjóna hagsmunum sínum og nota þetta mál, endurskoðun stjórnarskrárinnar, til að klekkja á ríkisstjórninni með einhverjum hætti og bæta sér upp það sálræna áfall sem hrunið eftir 18 ára stjórnleysi og frjálshyggjuvitleysisgang Sjálfstæðisflokksins hafði haft, varð þessi niðurstaða sú eina rökrétta.

Ég ber hins vegar virðingu fyrir því að menn hafi aðra skoðun í þessu efni og ég get útvíkkað þá virðingu á Birgi Ármannsson, hv. þingmann, hér með af því að ég veit að sá þingmaður, þvert á ýmsa aðra þingmenn í Sjálfstæðisflokknum, hefur haft fyrir því að koma sér upp sjálfstæðri skoðun á málinu og byggir hana á reynslu sinni og lögfræðiþekkingu. Ég vil hins vegar segja við Birgi Ármannsson að þessi upprifjun á ræðukeppninni í gær var þannig að …

(Forseti (ÁI): Forseti biður hv. þingmann um að gæta að þeirri hefð sem hér ríkir varðandi ávörp þingmanna.)

Forseti. Ég var búinn að nefna þingmanninn með hinu virðulega heiti og þarf þess vegna ekki að endurtaka það, en ég skal gæta að því. En það er þannig með ræðukeppnina að þeir sem dæma, það er sérstök sveit úti í sal, dæma ekki hver annan. Kvennaskólinn kom ekki upp og dæmdi Versló heldur voru það sérstakir dómarar og við skulum bara halda (Forseti hringir.) þeim hætti hér eftir.