139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður rifjaði þetta upp vegna þess að ræðu hans mátti ekki skilja öðruvísi en sem einhvers konar dóm eða palladóm um málflutning margra samþingmanna minna í Sjálfstæðisflokknum svo því sé til haga haldið.

Ég ætla að ítreka þá spurningu sem ég endaði fyrra andsvar mitt á. Það var spurning sem hljóðaði einhvern veginn á þá leið hvort hv. þingmaður hefði ekki áhyggjur af því að verið væri að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar í kærumálum sem beint var til hans vegna stjórnlagaþingskosninganna. Ég vildi jafnframt rifja það upp með hv. þingmanni að það var ákvörðun Alþingis að fela Hæstarétti ákvörðunarvald í málum af þessu tagi. Um þá niðurstöðu var samstaða hér í þinginu, þ.e. að fela Hæstarétti þetta verkefni, kom reyndar til vegna tillögu frá allsherjarnefnd á sínum tíma. (Forseti hringir.) Ég vil því spyrja hvort bragur væri á því að mati hv. þingmanns (Forseti hringir.) að þegar niðurstaðan er ekki þinginu (Forseti hringir.) eða hv. þingmönnum að skapi þá taki þingið á sig svig til að (Forseti hringir.) fara í kringum niðurstöðuna.