139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur ekki sennilega hlustað á allar ræður mínar. Í einni ræðunni fór ég nákvæmlega í gegnum það hvernig ég sé fyrir mér stjórnarskrá. Ég vil nefnilega gera miklar breytingar á henni og væri ánægjulegt ef hv. þingmaður mundi kynna sér það.

Svo segir hv. þingmaður að ég hafi fengið skipun einhvers staðar frá um að vera á einhverri ákveðinni skoðun. Væntanlega er ég þá í hópi þeirra sem mynda sér ekki sjálfstæðar skoðanir á þessum málum. Ég vil biðja hv. þingmann um að rökstyðja það. Ég er ekki vanur að taka skipunum og ef sjálfstæðismenn hafa tekið skipunum er það sennilega frá mér. Ég býst þó ekki við því að ég hafi það vald í Sjálfstæðisflokknum. Það er því eitthvað að þeirri fullyrðingu að sjálfstæðismenn hafi fengið skipun. Sennilega leiðir það af þeirri beiskju sem hv. þingmaður er haldinn gagnvart sinni hæstv. ríkisstjórn sem hann á í vandræðum með vegna þess að hún er alltaf að klúðra öllum málum, þar á meðal því sem við ræðum, og svo ber enginn ábyrgð. Hæstv. innanríkisráðherra ber ekki ábyrgð og hæstv. umhverfisráðherra ber ekki ábyrgð. (Gripið fram í.)