139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:10]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég færði rök fyrir áðan finnst mér tvennt skipta miklu máli. Í úrskurði Hæstaréttar eru færð, að mér finnst, ákveðin fræðileg rök, það hefði verið fræðilega hægt að rekja kjörseðlana til einstaklinga af því að þeir voru merktir á baksíðunni með númerum. Í reynd hefði þurft víðtækt samsæri ef menn hefðu ætlað að finna út hver kaus hvernig. Miðað við hvað stendur í úrskurðinum þá get ég ekki séð að svindlað hafi verið í kosningunum. Þetta er allt á einhverju fræðilegu plani.

Ég skil hins vegar alveg að Hæstiréttur geri athugasemd við ýmislegt, að sjálfsögðu gerir Hæstiréttur athugasemdir við númerin, við kjörklefana og að seðillinn var ekki brotinn saman og hitt og þetta, engir umboðsmenn o.s.frv. Ég skil það. En úr því sem komið er tel ég að ekki hafi verið svindlað í kosningunum þó að ég geti ekki sannað það. 84 þúsund manns tóku þátt sem mér finnst ekkert svo lítið í frekar flókinni kosningu og búið var að hræða fólk með því að að það yrðu langar biðraðir o.s.frv. Ég tel að unnt sé að gera þetta og við förum ekki gegn Hæstarétti. Þá verður maður auðvitað að útskýra af hverju maður telur að svo sé ekki og af hverju þetta sé leiðin. Ég tel líka mjög mikilvægt að þetta er ráðgefandi, ekki bindandi. Þetta er ekki endanlegt. Ég segi því miður er þetta ekki endanlegt, ég hefði viljað hafa það bindandi. Tillögurnar koma hingað inn (Forseti hringir.) og svo tekur þingið við.