139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:13]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei haldið því fram og ég held að enginn hafi í rauninni haldið því fram að í kosningunum til stjórnlagaþings sem ógiltar voru af Hæstarétti hafi verið svindlað. Ég held að flestir sem um þetta hafa rætt hafi ekki litið svo á. En ég held að hv. þingmaður geti ekki fullyrt að þeir annmarkar sem voru á framkvæmd kosninganna hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu þeirra, ekki frekar en ég get fullyrt að annmarkarnir hafi haft áhrif á niðurstöðuna, við bara vitum það ekki.

Aðalatriðið er að niðurstaða kosninganna var ógilt af Hæstarétti Íslands, það er kjarni málsins. Við getum haft okkar skoðanir á því hvort Hæstiréttur hafi haft rétt fyrir sér eða ekki. Ég hef oft verið andsnúinn dómum Hæstaréttar í ýmsum málum sem þar hafa verið til meðferðar. En maður hefur alltaf sætt sig við, hvort sem maður er ósáttur við niðurstöðurnar eða ekki, að þurfa að hlíta niðurstöðum æðsta dómstóls landsins. Ég tel að með þessari tillögu sé verið að leggja til að gera það ekki. Þá skiptir engu máli í mínum huga hvort tillögur stjórnlagaráðsins eigi að vera bindandi eða ekki. Kosningin átti að vera bindandi. Hún fór fram samkvæmt almennum lögum sem sett voru á Alþingi, þetta voru almennar kosningar. Þær voru ógiltar. Með því að ganga fram með þeim hætti sem hér er lagt til tel ég að menn leggi það til að hafa niðurstöður Hæstaréttar að engu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) í framhaldi af þessu: Ef það er ekki gert með þessari tillögu, (Forseti hringir.) hvernig gætu menn þá haft niðurstöður réttarins að engu? (Forseti hringir.) Hvers konar framkvæmd yrði það eiginlega? Hvað mundi það kallast?