139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að spyrja hv. þm. Siv Friðleifsdóttur hvort hún telji að það stjórnlagaráð sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir að taki til starfa verði með einhverjum hætti öðruvísi en stjórnlagaþingið sem lögin kveða á um, hvort einhver munur verði á þessum tveimur fyrirbærum, ef við getum kallað það svo, hvort sem við köllum það nefnd, ráð, þing, samkomu, eða hvaða nafn sem við veljum. Er ekki um að ræða nákvæmlega sama fyrirbærið, sömu samkomuna? Eina breytingin sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir, eins og ég les hana, er að nafnið breytist og að fulltrúarnir fá skipunarbréf úr hendi forseta Alþingis en ekki kjörbréf frá landskjörstjórn. Deilir hv. þm. Siv Friðleifsdóttir þeim skilningi með mér?