139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:18]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, þetta verður auðvitað ekki nákvæmlega eins því að við þurfum að grípa til þessarar lagasetningar. Það verður þá þingið eftir umræður — við erum í fyrri umr. núna og þetta fer svo til nefndar og síðan til síðari umr. — sem gengur frá þessu. Það er auðvitað allt annað en stjórnlagaþingskosningin sjálf.

Við kjósum hins vegar í þinginu væntanlega, ef það er meiri hluti fyrir málinu, að velja þessa 25 en ekki einhverja aðra, færri eða fleiri. Það er okkar val þannig að þetta er ekki alveg sama fyrirbærið

Ég held reyndar líka að vegna þessarar uppákomu, þessa úrskurðar, og þess að okkur tókst ekki að gera þetta kórrétt, sé minni sátt um stjórnlagaráðið en ella hefði orðið. Það verður minni sátt um afurðina, ég óttast það, vegna þess að við þurfum að fara í gegnum alla þessa umræðu hérna. Það verður því minni sátt um afurðina held ég, því miður, þegar hún kemur hingað inn til meðferðar í þinginu, þ.e. drögin að nýrri stjórnarskrá, tillagan frá stjórnlagaráðinu, að jafnvel þeir sem hafa verið andsnúnir þessu ferli tali gegn tillögunum sem koma. Ég vona auðvitað að svo verði ekki en ósamstaða ríkir um málið, ég finn það, og hún er alveg þvert á flokka. Ég stend hér sem framsóknarþingmaður, við erum ekki öll sammála þar, því miður, og svo er í öðrum flokkum líka, ekki öllum. Þessi niðurstaða (Forseti hringir.) er ekki til góðs fyrir málið skulum við segja.