139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um það að ákveðinn munur er annars vegar á málsmeðferðinni, forminu og hins vegar afurðinni. Ég nefni sem dæmi að við sjálfstæðismenn í allsherjarnefnd tókum þátt í því að sett var á fót svokölluð stjórnlaganefnd sem hefur verið að störfum frá því síðasta sumar. Mér skilst að nú sé tilbúin skýrsla, eða skýrslur, frá þeirri nefnd sem ætluð er stjórnlagaþinginu og kemur hugsanlega fyrir almenningssjónir innan skamms, við vitum það ekki. Við studdum það ferli. Við studdum þá málsmeðferð að sá hópur fengi það verkefni m.a. að setja fram tillögur um stjórnarskrá. Í því felst hins vegar enginn áskilnaður eða loforð af okkar hálfu eða annarra um að styðja þær tillögur sem þar koma fram. Við vorum sátt við ferlið en við áskiljum okkur fullan rétt til að hafa okkar eigin skoðanir á tillögum sem þaðan koma. Sama á við um aðrar leiðir sem valdar eru þannig að mér finnst það ekki skipta höfuðmáli í þessu.

Það sem ég er að reyna að átta mig á með hv. þingmanni og öðrum sem hér tala er hvort þingsályktunartillagan gangi ekki einfaldlega út á það að setja á fót sömu samkomu og ætlunin var að kjósa til með kosningunni í nóvember, bara með nýju nafni og breyttu skipunarbréfi, skipunarbréfi frá forseta þingsins en ekki kjörbréfi frá landskjörstjórn. Þetta finnst mér skipta máli þegar við erum einmitt að ræða það hvort verið sé að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar eða ekki. Hæstiréttur ógilti kosninguna og í ógildingu kosningar felst einfaldlega það að kosningin er ekki gild. Niðurstaða kosningarinnar er ekki gild.