139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:23]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta ekki alveg vera nákvæmlega það sama, eins og ég sagði í fyrra andsvari, vegna þess að nýja ráðið þiggur vald sitt frá þinginu. Það er þingið sem afgreiðir nöfnin inn í þetta ráð. En þingið kýs, löggjafinn kýs líklega, ef meiri hluti verður á bak við þetta mál, að velja þá sem hlutu kosningu hjá þjóðinni á sínum tíma þegar kosið var til stjórnlagaþings. Mér finnst þetta ekki vera nákvæmlega sama fyrirbærið, ef svo má að orði komast, af því að það fær ekki vald sitt frá sömu uppsprettunni. Núna er þingið sem sagt að veita þetta vald. Er þetta mikið vald? Jú, þetta er eitthvert vald. Þetta er þó einungis ráðgefandi vald. Mér finnst vera gríðarlegur munur á því.

Ég heyri að hv. þm. Birgir Ármannsson segir að þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi stutt sjömannanefnd sem er að undirbúa gögn fyrir okkur í áframhaldandi vinnu þá felist ekki í því nein loforð um að fylgja þeirri ráðgjöf sem kemur. Það er alveg rétt, það hefur enginn flokkur sagt að hann muni styðja það sem kemur frá stjórnlagaráðinu né stjórnlagaþinginu fyrir fram, það hefur enginn sagt það, en ég held að flokkar séu misjafnlega tilbúnir til þess að fylgja því sem kemur. Það var megingrunnurinn á bak við það að Framsóknarflokkurinn vildi að stjórnlagaþingið yrði bindandi, að farið væri fram hjá þinginu en þjóðin ætti að greiða þjóðaratkvæði um niðurstöðu stjórnlagaþings. Þannig var hugmyndafræði okkar frá upphafi. En við misstum það frá okkur og það var aðallega af því að Sjálfstæðisflokkurinn lagðist í málþóf og niðurstaðan varð málamiðlun, sem var ráðgefandi þing. Svo lendum við í því að úrskurður Hæstaréttar segir kosninguna ógilda (Forseti hringir.) en þingsályktunartillagan sem hér er til umræðu er þó skásta leiðin út úr þessu.