139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðum um þetta mál, þingsályktunartillögu þriggja þingmanna um skipun svokallaðs stjórnlagaráðs, og kannski voru síðustu orðaskipti hv. þingmanna Birgis Ármannssonar og Sivjar Friðleifsdóttur lýsandi dæmi um það en þau voru ekki alveg sammála um hvernig líta skyldi á þetta mál.

Rök hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur voru á þann veg að þetta væri ekki fullkomið en þetta væri skásta leiðin. Ég get ekki að því gert að mér finnst það ekki alveg nógu gott að þegar við erum að tala um að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sem eru þau grunnlög sem við byggjum alla aðra lagasetningu á, séum við að velja skásta kostinn. Við eigum að sjálfsögðu að velja besta kostinn, þann kost sem við getum náð saman um, og við eigum að gefa okkur tíma til að klára það verk og vanda til verka en ekki að setja málin í þann farveg að það þurfi að klára þetta í ósamlyndi og með einhverjum handarbakavinnubrögðum sem ekki eru til fyrirmyndar.

Það sem gerðist hér er tiltölulega einfalt. Stjórnvöld ákváðu að kosið yrði til stjórnlagaþings — og ég get alveg viðurkennt það hér, og það kemur víst fæstum á óvart, að ég er ekki helsti stuðningsmaður stjórnlagaþings, en það var ákvörðun meiri hluta Alþingis að svo skyldi gert. Sett voru um það lög, kosningin fór fram og við getum rætt mikið um það hvernig sú kosning var, þátttaka og áhugi almennings í sögulegu lágmarki, 36% þjóðarinnar tóku þátt í kosningunum, og ég get játað það hér að ég var ein af þeim. Þrátt fyrir að vera ekki stuðningsmaður stjórnlagaþings er ég það mikið fylgjandi lýðræði að ég tek þátt í lýðræðislegum kosningum og nýti minn lýðræðislega kosningarrétt. En það er önnur saga.

Þarna voru 25 einstaklingar kosnir og það má alveg velta fyrir sér umboði þeirra, þetta eru allt ágætir einstaklingar, hver á sinn hátt, og ég vil ekki með neinum hætti kasta rýrð á þá. Svo kemur í ljós þegar ákveðnir annmarkar eru kærðir til Hæstaréttar — til þess sama Hæstaréttar og Alþingi, með þessari sömu lagasetningu um stjórnlagaþingið, ákvað að skyldi úrskurða um kæruatriði — að svo fór að kosningarnar voru ógiltar. Sama hvað mönnum finnst um stjórnlagaþing þá er það einfaldlega niðurstaðan og henni ber að hlíta. Ég get ekki séð að annar möguleiki hafi verið í stöðunni ef menn hafa viljað gera þetta og vanda vinnubrögð — ef stjórnlagaþing væri það eina sem menn tryðu á að gæti orðið til að breyta stjórnarskránni — en sá að breyta lögum um stjórnlagaþing, setja ný lög, endurtaka kosningarnar frá upphafi til enda og gera hlutina rétt í það skiptið. Það hefði verið eina leiðin til að klára þetta mál svo að einhver sómi væri að. Það var ekki gert, heldur fóru menn í að skoða og henda á milli sín tillögum um hinar og þessar leiðir sem voru að sjálfsögðu misgáfulegar. Og ég verð að taka undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni þegar hann segir að sú leið sem á endanum hafi verið valin hafi sennilega verið sú allra versta.

Ég ætla líka að fá að vitna í annan samflokksmann minn, sem ég er sammála í þessu máli, en hann skrifar ágæta grein í Morgunblaðið þann 1. mars, það er hv. þm. Birgir Ármannsson.

Hann segir, með leyfi forseta:

„Samþykki Alþingi tillöguna“ — og þá er verið að vísa í þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir — „gæti það alveg eins afgreitt frá sér ályktun sem hljóðaði svo: „Alþingi ályktar að hafa beri að engu ákvörðun Hæstaréttar frá 25. janúar 2011.““

Ég spyr eins og þingmaðurinn spyr í þessari blaðagrein:

„Myndu margir alþingismenn treysta sér til að styðja tillögu með slíku orðalagi?“

Sjálfsagt ekki, ég ætla engum það, en það er náttúrlega ekki verið að gera neitt annað en að sniðganga úrskurð Hæstaréttar. Margir lögfróðir einstaklingar hafa tjáð sig um málið og jú, jú, þetta er væntanlega löglegt. En eins og Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögum við Háskólann í Reykjavík, segir: „Þetta er löglegt en óheppilegt.“

Ég veit ekki hvort er verra að réttlæta stuðning við þingsályktunartillöguna með því að segja að hún sé skásta leiðin, eða að leggja til leið sem er lögleg en óheppileg að mati lögspekinga. Ég velti því fyrir mér, og hef velt því fyrir mér í gegnum allt þetta mál, hvað við mundum hugsa ef við heyrðum slíkar fregnir frá útlöndum, frá fjarlægu ríki þar sem lýðræðishefðir væru ekki sterkar — að kosningar hafi farið fram í því landi, hafi síðan verið dæmdar ógildar og þá hafi þingið ákveðið að skipta um nafn á fyrirbærinu og fara á svig á við dóm réttarins sem dæmdi kosningarnar ógildar. (Gripið fram í: Úrskurð.) — Rétt, úrskurð, ég leiðrétti það með ánægju að þetta er úrskurður Hæstaréttar. Samkvæmt lögum frá Alþingi var Hæstarétti falið að úrskurða um vafaatriði sem hann og gerði, sex dómarar samhljóða. Ég held að við mundum reka upp stór augu og telja ýmsu ábótavant í því lýðræðisríki sem þannig færi að ráði sínu, ef við læsum um það í blöðum.

Okkur sjálfstæðismönnum hefur verið legið á hálsi fyrir að vilja ekki endurskoða stjórnarskrána og það er einfaldlega rangt. Það hefur verið málflutningur okkar í því máli að við viljum vanda til verka og við viljum gera það á þann veg að við náum um það samstöðu. Ég skil ekki þennan asa á málinu. Ég skil ekki af hverju menn setjast ekki niður og reyna að láta á það reyna hvort við hér á Alþingi, sem erum sannarlega stjórnlagaþing, erum stjórnarskrárgjafinn, getum náð saman. Höfum við einhvern tíma gert það nú í seinni tíð? Ég held ekki. Það hefur verið farið djúpt niður í skotgrafirnar og mönnum hafa verið gerðar upp skoðanir í ýmsum ágreiningsmálum í stað þess að reyna að ná saman.

Ég tek undir þá bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í samráðsnefnd um viðbrögð við ákvörðun Hæstaréttar, um ógildingu kosninganna til stjórnlagaþings, að við gerum einmitt þetta, að við nýtum þá miklu vinnu sem þegar hefur verið unnin hér á þinginu á síðasta kjörtímabili, sem náðist ekki að klára, með þjóðfundinum, í stjórnlaganefnd. Tökum þetta verkefni hingað til okkar. Þó að sú leið sem hér er rædd sé að einhverra mati skásta leiðin er ekki nokkur maður í hjarta sínu sannfærður um að hún sé besta leiðin. Meðan við getum ekki komið okkur saman um leið sem við höfum einhverja sannfæringu fyrir held ég að tíma okkar væri betur varið í að ræða okkur í gegnum þau atriði sem þarf að endurskoða og athuga hvort við gætum ekki komið sjálfum okkur á óvart og reynt að ná saman um að gera þetta hér á þinginu.