139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að leiðrétta hv. þingmann. Ég sagði aldrei að ég styddi það að endurtaka kosninguna til stjórnlagaþings. Ég sagði að ef menn væru þeirrar skoðunar að stjórnlagaþing væri eini kosturinn, og væri sá kostur sem þeir vildu, til þess að endurskoða stjórnarskrána væri það að endurtaka kosninguna frá upphafi til enda og breyta lögum eina leiðin til þess. Ég sagði hins vegar — og hv. þingmaður hefur ekki verið að hlusta — að til þess að breyta stjórnarskránni ættum við hér á þinginu að sameinast um að taka þá vinnu sem búið er að framkvæma hér á Alþingi, í kjölfar þjóðfundarins, af stjórnlaganefndinni — við ættum að taka þá vinnu, nýta hana, koma okkur saman um það hér á Alþingi að endurskoða stjórnarskrána vegna þess að ég tel að við þingmenn eigum að gera það. Ég vona að ég hafi talað nógu skýrt fyrir hv. þingmann vegna þess að þetta er nákvæmlega það sem ég hef talað fyrir, þetta er nákvæmlega það sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur talað fyrir, þetta er nákvæmlega það sem bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórnlaganefndinni snýst um, þetta er nákvæmlega það sem við höfum öll verið að tala fyrir.

Ef hv. þingmaður vill leika sér að því að búa til einhvern ágreining í þingflokki Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) er það væntanlega vegna þess að hann hlustar ekki betur, t.d. á ræðu mína hér áðan, þingmaðurinn vænir mig um að hafa aðra skoðun en ég hef og tjáði í minni ræðu. Það væri því hugsanlegt að aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu verið að útskýra það sama og ég var að reyna að gera, þ.e. að ef stjórnlagaþing væri málið væru aðrar leiðir til þess. En ef málið snýst um að endurskoða stjórnarskrána erum við algjörlega með kristaltæra sýn á það. Og merkilegt nokk, (Forseti hringir.) hún er bara algjörlega samhljóða, hv. þingmaður.