139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir leitt að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að við náum ekki saman vegna skoðana Sjálfstæðisflokksins. Það er mikið talað um þjóðina, að þjóðin vilji þetta. Það má ekki taka stjórnlagaþingið af þjóðinni, sagði hæstv. forsætisráðherra hér eftir að hún var búin að berja, á svipaðan hátt og hv. þingmaður gerði hér, á íhaldinu sem átti að koma í veg fyrir allar framfarir. (Gripið fram í.)

Í nýlegum skoðanakönnunum (VBj: Ég sagði það ekki.) kemur í ljós að það er 1,9% — íhaldið er orðið sem hæstv. forsætisráðherra notaði yfir Sjálfstæðisflokkinn. (VBj: Ég notaði það ekki.) Nei, ég var að vísa til hæstv. forsætisráðherra. (VBJ: Ekki leggja mér orð í munn.) — Fæ ég hljóð? Ég þakka. Í nýlegum skoðanakönnunum kemur í ljós að það er 1,9% þjóðarinnar sem telur stjórnlagaþing vera það merkilegasta sem við eigum að vera að gera núna og það sem við eigum að leggja aðaláherslu á. Ég leyfi mér að fullyrða að það er ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn sem er á móti þessari leið. Ég er algjörlega sannfærð um að það eru fleiri en við 16 þingmenn Sjálfstæðisflokksins hér í þessum þingsal sem erum á móti því að fara þessa leið.

Ég skal bjóða mig heils hugar fram til að ræða við hv. þingmann, og alla aðra þingmenn, setjast niður og ræða það hvernig við eigum að breyta stjórnarskránni vegna þess að ég tel að við getum náð saman um það. Ég tel að ef menn láta af þessari þráhyggju um þetta stjórnlagaþing, sem er gjörsamlega farin að villa mönnum sýn — þetta er svo mikil tímapressa sem er heimatilbúin — í staðinn fyrir að vanda sig, í staðinn fyrir að gefa þessu tíma. Það á ekki að vera einfalt að breyta stjórnarskránni. Það er settur í stjórnarskrána þessi ferill einmitt vegna þess að það krefst þess að fólk leiti samstöðu, að það nái saman um hlutina. Gefum okkur tíma í það (Forseti hringir.) og ég veit að við klárum það.