139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég var á fundi framsóknarmanna í borginni rétt áðan og var kölluð inn í þingið til að fara í ræðustól því að það var komið að mér. Þá fékk ég þessa spurningu: Af hverju eru framsóknarmenn hættir við hugmyndina um stjórnlagaþing? Hvað er um að vera? Því er til að svara, frú forseti, og það er best að ég svari því úr þessari pontu fyrir þingmenn og þá sem á hlusta, að við framsóknarmenn erum hættir við þá hugmynd sem heitir stjórnlagaþing. Í fyrsta lagi vegna þess að ríkisstjórninni tókst að klúðra kosningu stjórnlagaþingsins sem kosið var til. Í öðru lagi ógilti Hæstiréttur kosninguna. Í þriðja lagi hefur ríkisstjórnin með þessari þingsályktunartillögu um skipun stjórnlagaráðs tekið út af borðinu allar hugmyndir um stjórnlagaþing. Ríkisstjórnin sópaði því út af borðinu. Við framsóknarmenn vildum að kosið yrði upp á nýtt, byrjað frá upphafi með nýjum lögum, og sögðum jafnframt: Þetta er ekki brýnasta verkefnið sem bíður núna. Ýmis önnur verkefni í þjóðfélaginu eru brýnni en stjórnlagaþingið. Vöndum okkur við að semja ný lög, ógildum gömlu lögin um kosninguna sem Hæstiréttur dæmdi ógilda og byrjum upp á nýtt.

Það er eitthvað sem hastar hjá ríkisstjórninni, það er augljóst fyrst þessi leið er farin. Meira að segja stendur ríkisstjórnin ekki að þessu máli, það stendur ekki nein þingnefnd að málinu, þrír þingmenn standa að því, tveir þeirra eru úr ríkisstjórnarflokkunum og einn er fulltrúi Hreyfingarinnar. Fulltrúi Framsóknarflokks er ekki á þessu máli og ekki heldur fulltrúi sjálfstæðismanna því að við gerum okkur grein fyrir því að Alþingi má ekki undir neinum kringumstæðum fara á móti Hæstarétti. Ég sagði í ræðu minni í dag að það hefðu meira að segja sex hæstaréttardómarar úrskurðað um að stjórnlagaþingið væri ógilt.

Þetta er alvarlegt mál. Það er grafalvarlegt ef ríkisstjórnarflokkarnir ætla að fara fram með þessa tillögu og reyna að fá hana samþykkta í þinginu, tillögu sem beinlínis er gerð til höfuðs Hæstarétti Íslands. Við tölum um þrískiptingu ríkisvaldsins, við tölum um að með þessu eigi að fara að endurskoða stjórnarskrána, skapa skarpari skil á milli þrígreiningarinnar, löggjafans, framkvæmdarvaldsins og dómsvaldsins, og þá leyfir ríkisstjórnin sér að ryðjast inn í löggjafarvaldið og hunsa niðurstöðu Hæstaréttar. Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir vill nefnilega fá sitt stjórnlagaþing. En því miður er ekki lengur neitt stjórnlagaþing í boði því að ríkisstjórnin henti því sjálf út af borðinu.

Stjórnlagaráð skipað þeim 25 fulltrúum sem voru kosnir á stjórnlagaþing er eitthvað sem flestir mundu segja að væru algjörlega marklaust. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim aðilum sem voru kosnir á stjórnlagaþingið, ég vorkenni þeim heil ósköp því að líf þeirra hefur verið eins og í rússíbana síðan þetta gerðist, margir þeirra höfðu tjáð sig, margir höfðu barist fyrir sætum sínum. En því miður er þetta niðurstaða Hæstaréttar og eins og ef Hæstiréttur mundi ógilda kosningar til Alþingis eða eins og gerst hefur að Hæstiréttur eða dómstólar ógilda niðurstöður í sveitarstjórnarkosningum þá skal kosið upp á nýtt og það hefur verið gert þegar niðurstaða kosninga til sveitarstjórna hefur verið ógilt.

Það sem láðist nefnilega hjá þeim stórsnillingum sem sömdu frumvarpið um stjórnlagaþing var að hafa ákvæði í lögunum um stjórnlagaþing um að það mætti kjósa upp á nýtt og þess vegna var hið svokallaða eyðuákvæði í því, það var ekkert í lögunum sem heimilaði að kjósa upp á nýtt og það var ekki hægt að lögjafna frá lögum til sveitarstjórna. Svona er þetta í pottinn búið.

Ég vil benda fólki á vefinn stjornlagathing.is sem er mikill og góður vefur. Ég prentaði þaðan út því að það var búið að setja allt í startholurnar, starfsfólk hafði verið ráðið hvað þá heldur þrátt fyrir að ríkisstjórnin vissi að kæra lægi inni í Hæstarétti, ekki ein kæra heldur þrjár. En þetta var hunsað eins og allt annað og ekki hlustað á það.

Mig langar til að lesa upp nöfn þeirra aðila sem skipa stjórnlaganefnd og sem ég vil að leggi fram hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá fyrir Alþingi. Það eru Guðrún Pétursdóttir formaður, Aðalheiður Ámundadóttir lögfræðingur, Ágúst Þór Árnason, lektor við Háskólann á Akureyri, Björg Thorarensen, hvorki meira né minna en prófessor í lögum, Ellý K. Guðmundsdóttir, Njörður P. Njarðvík og Skúli Magnússon dómari. Þessu fólki treysti ég til að skila drögum að nýrri stjórnarskrá (Forseti hringir.) til Alþingis, alveg eins og því var treyst til að skila drögum að stjórnarskrá til stjórnlagaþings.