139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur mikla trú á Hæstarétti og hún, Vigdís Hauksdóttir, trúir því að það eigi að fara algjörlega eftir því sem Hæstiréttur segir. Þetta er það sem ég fæ skilið af ræðu hennar.

Finnst hv. þingmanni það eðlilegt og tekur hún eftir því eins og ég að við erum í síauknum mæli að sniðganga dóma og úrskurði Hæstaréttar og hvaða áhrif telur hv. þingmaður að það hafi á þróun mannréttinda í landinu til næstu mánaða og ára? Hér situr hæstv. umhverfisráðherra með dóm frá Hæstarétti á bakinu um að hún hafi beitt ofbeldi já, eða hún hafi sniðgengið lög í samskiptum við borgara og hæstv. ráðherra segir að þetta séu nú bara stjórnmál. Hér klúðrast kosning til stjórnlagaþings og hæstv. innanríkisráðherra segir: Ja, ég er nú ekki sammála því sem Hæstiréttur leggur til grundvallar. Hann vill að sjálfsögðu hlíta úrskurðinum engu að síður, en að einhver beri ábyrgð á þessu — enginn.

Nú er það svo að hinn venjulegi maður á mikið undir því að geta treyst því að dómsvaldið skeri úr um ef framkvæmdarvaldið eða löggjafarvaldið fer offari gegn honum. Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hún ekki að það sé hættuleg þróun gagnvart stöðu mannréttinda í landinu að í auknum mæli sé verið að taka þessu svona? Og er það ekki rétt skilið að í kjölfar hruna og kreppna í heiminum þurfi að gæta sérstaklega að stöðu mannréttinda?