139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir hvert einasta orð og áhyggjur hv. þm. Péturs H. Blöndals. Það sem ég hef undrast mest eftir að ég hóf störf á Alþingi er hið mikla kæruleysi gagnvart lögum og reglum sem verið er að setja hér og eru í gildi í samfélaginu en þeir aðilar sem hér sitja, sérstaklega í aftari sætunum hér, fara ekki eftir og hunsa. Þetta er meginstefið í frumvarpi sem ég ásamt öðrum þingmönnum hef lagt fyrir þingið um lagaskrifstofu Alþingis.

Í greinargerð með því frumvarpi er farið nákvæmlega yfir það hvernig stjórnvöld hunsa úrskurði og dóma Hæstaréttar, hvernig álit umboðsmanns Alþingis eru hunsuð og ekki einu sinni virt viðlits. Það eru að minnir mig u.þ.b. 100 mál sem umboðsmaður Alþingis tekur fyrir á ári sem snúa að meinbugum á lögum. Mig misminnir kannski, talan gæti verið örlítið lægri, ég er ekki með frumvarpið fyrir framan mig, en þetta er alvarlegt mál. Lagasetning hér á landi hefur verið með þeim hætti að stjórnarskrá er nánast brotin einu sinni, tvisvar á ári. Það hefur einu sinni gerst í Danmörku að löggjafinn þar fór fram með frumvarp sem varð að lögum sem brutu stjórnarskrána. Það var landshneyksli og hafði ekki gerst áður. En þar brást löggjafinn líka við með þeim hætti að stofnuð var lagaskrifstofa og lagaráð sem les hvert einasta frumvarp og tillögur sem koma fyrir þingið, samles það við stjórnarskrá og önnur lög og þá gerast svona slys ekki.

Hér er þetta daglegt brauð. Ég hef þungar áhyggjur af þessu. Þetta er eitthvað sem ríkisstjórnin hefur tamið sér. Á eftir ætlum við einmitt að fara að gera lagabætur á lögum sem voru samþykkt í fyrra um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég kem til með að tala um þetta vandamál þar.