139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki lesið tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur þannig að ég ætla ekki að lýsa yfir stuðningi við hana í þessum ræðustól, hvorki fyrir mína hönd né vina og vandamanna. Miðað við þá stuttu lýsingu á henni sem ég heyrði í andsvari hv. þingmanns er ég tilbúinn að skoða hana með jákvæðu hugarfari en í ljósi reynslunnar verð ég að segja að ég fer varlega í að lýsa yfir stuðningi við tillögur sem ég á eftir að lesa. Ég veit að hv. þingmaður virðir þá skoðun mína.

Varðandi spurninguna um varamennina og útreikningana og annað sem fjallað hefur verið um í blaðaskrifum sem ég hef séð síðustu daga — ég hef ekki alveg náð utan um það — segi ég að það er mikilvægt (Forseti hringir.) að skoða það í sjálfri allsherjarnefnd því að þingsályktunartillagan sem slík gerir ráð fyrir að niðurstaða kosninganna 27. nóvember ráði. (Forseti hringir.) Því þarf að horfa á forsendurnar sem liggja þar að baki.