139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:18]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður beindi spurningum til okkar flutningsmanna þingsályktunartillögunnar sem við ræðum sem ég vil reyna að svara, þó ekki þeim sem hafa verið bornar upp við okkur áður. Hér hefur umræðan staðið alllengi og komið hefur verið inn á mörg af þeim atriðum sem hv. þingmaður fjallaði um oftar en einu sinni. Ég vil leitast við að svara þeirri spurningu hv. þingmanns hver það verður sem tekur ákvörðun um fjárútlát og um starfsemi að öðru leyti ef tillagan verður samþykkt. Um það vil ég segja, frú forseti, að í ákvæði í tillögugreininni segir:

„Forseti Alþingis sjái stjórnlagaráði fyrir starfsaðstöðu, starfsliði og nauðsynlegri sérfræðiaðstoð. Kostnaður vegna stjórnlagaráðs greiðist úr ríkissjóði samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis.“

Ef þessi tillögugrein verður samþykkt er það ljóst í mínum huga að ákvæðið yrði að sjálfsögðu túlkað sem viljayfirlýsing þingsins um að fjárveitingar til þessara þátta verði samþykktar. Væntanlega yrðu þær fjárveitingar sem fyrir liggja og eru í fjárlögum til þess verkefnis að endurskoða stjórnarskrána með aðkomu 25 einstaklinga utan þings, sá fjárlagaliður yrði væntanlega fluttur yfir á annað nafn, enda um svipað verkefni að ræða, lið í þessu langa ferli sem við höfum rætt.

Það er rík stjórnskipunarvenja fyrir því að samþykkja fjárveitingar með fjáraukalögum eftir á. Ég átta mig ekki á því að það er eins og sumir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi aldrei heyrt á það minnst.