139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:25]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína góðu ræðu sem var snarplega flutt, ágætlega hugsuð og studdist við reynslu þingmannsins og þroska í lögspeki og þingstörfum. En ég vil spyrja hann — vegna þess að ekki hefur verið fullljóst um aðra afstöðu Sjálfstæðisflokksins en þá að vera á móti stjórnlagaþingi og á móti því að stjórnarskráin kynni að endurskoðast með nokkrum öðrum hætti en þeim að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi þar nánast öll völd — út í ummæli tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins um málið, annars vegar hv. formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, að þingsályktunartillagan og sú leið sem þar er lögð til væri lögleg, og hins vegar þau ummæli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur í umræðum um fundarstjórn forseta í fyrradag, að þingsályktunartillaga sú sem við erum hér að ræða væri óþingtæk.

Það sem mig langar til að bera undir þingmanninn, og geri hér með, er hvorum þingmanninum hann fylgi, hvorri afstöðunni hann fylgi í þessu, eða hvort hann telji að þessi ummæli um þingsályktunartillöguna og þá leið sem þar er lögð til í átt til stjórnlagaráðs sem úrslitaáfanga að nýrri stjórnarskrá, geti samrýmst og þá með hvaða hætti.