139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að gera ummæli annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins að mínum. Ég mundi ekki ætla að þessi þingsályktunartillaga, þó að hún sé stórgölluð og byggi á leið sem ég tel ranga, yrði dæmd ólögmæt ef hún færi til dómstóla. Það er afstaða sem ég lýsti í umræðum um kvöldmatarleytið í gær, að sennilega mundi þetta standast ef reynt yrði að hnekkja þessari ályktun eða ákvörðunum teknum á grundvelli hennar fyrir dómstólum. En það breytir ekki þeirri afstöðu minni að ég tel að þetta sé afar slæm leið að því leyti að verið er að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar með mjög augljósum hætti. Það er lítið gert til að fela þann verknað. Sá bragur finnst mér alveg afleitur.

Varðandi það hvaða mál eru þingtæk eða ekki þingtæk held ég að það hafi verið hárrétt hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur að vekja athygli á því að hún hefði efasemdir um það. Sama gerðu einhverjir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins við upphaf umræðu í gær. Það var úrskurður forseta að tillagan væri þingtæk og við það höfum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins unað, eðlilega, ekki um annað að ræða, og höfum þess vegna tekið þátt í efnislegri umræðu um hana þó að við viljum gagnrýna þar marga þætti harðlega.