139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er búin að vera mikil og góð umræða og að mestu leyti málefnaleg. Ég verð reyndar að gera undantekningu sem er hv. þm. Mörður Árnason, mér fannst hann ekki vera sérstaklega málefnalegur þegar hann gaf þingmönnum Sjálfstæðisflokksins alls konar einkunnir sem mér fannst mjög ósanngjarnar og sagði að við tækjum við skipunum frá einhverjum Hádegismóum eða hvað hann kallaði það. Það er algerlega út í hött. Það vill bara svo til að við í Sjálfstæðisflokknum höfum sambærilega lífssýn og sambærilega lífsskoðun og við erum öll held ég mjög hlynnt því að fara að dómi Hæstaréttar. Þetta er hæsti réttur. Það á að hlýða honum í einu og öllu.

Ég held að það hafi sameinað hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í þessari afstöðu fyrir utan að menn telja sig vera kosna á stjórnlagaþing þar sem Alþingi er. Alþingi samþykkir breytingar á stjórnarskrá. Strax að því loknu er boðað til kosninga. Þá kýs þjóðin nýtt Alþingi til fjögurra ára, því miður, vegna þess að þá er þjóðin ekkert að hugsa um stjórnarskrárbreytinguna sem slíka heldur væntanlega hvaða stjórnmálamenn fylgja góðri stefnu varðandi efnahagsmál, atvinnumál og mannréttindamál o.s.frv. Þjóðin kýs ekki eða greiðir ekki atkvæði um stjórnarskrána. Þetta finnst mér einn stærsti ljóðurinn á öllu þessu ferli sem menn eru að fara út í. Menn áttu og eiga að sjálfsögðu að breyta 79. gr. fyrst þannig að hún kveði á um að breytingar á stjórnarskrá skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er bindandi og mjög stóran meiri hluta þjóðarinnar þurfi til að samþykkja það vegna þess að stjórnarskrá á að vera samþykkt í sátt.

Ég ætla rétt aðeins að koma inn á að ég sat í nefndinni sem reyndi að taka á því hvernig Alþingi ætti að bregðast við því allsherjarklúðri sem varð eftir að Hæstiréttur dæmdi kosninguna ógilda. Ég leitaði virkilega að einhverri lausn í þeirri nefnd. Það kom reyndar ekkert voðalega margt til greina. Fjórar leiðir voru skoðaðar eins og ég kom inn á fyrr í dag. Ég sakna þess að í þingskjalinu sem við ræðum hér, tillögu til þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs, er getið um álit meiri hluta nefndarinnar en ekki álit minni hlutans sem skilaði þó nokkuð löngu áliti með ákveðnum sjónarmiðum sem mér finnst vanta í umræðuna núna. Nú er það hvergi birt. Hv. þm. Birgir Ármannsson las það reyndar í ræðu sinni fyrr í dag en það finnst mér ekki nógu sniðugt. Mér finnst ljóður á öllu saman að nefndarálitið skuli ekki hafa verið birt og gert lítið úr því starfi sem ég og hv. þm. Birgir Ármannsson sinntum í nefndinni. Töluverð vinna var lögð í álitið svo það komi fram, þar var ekkert kastað til höndum og þar koma fram sjónarmið Sjálfstæðisflokksins eða að minnsta kosti okkar tveggja, við vorum sammála um þetta.

Mig langaði til að nota tímann til að fara í gegnum kosninguna, bara til að menn læri af því. Nú hef ég ekki langan tíma, því miður, en ég gæti haldið langa ræðu um það að hafa svo stærðfræðilega úrlausn á niðurstöðum sem nánast enginn skilur og leiðir til furðulegra niðurstaðna. Hvað gerist ef þessi tillaga verður samþykkt en einhver segist ekki bjóða sig fram aftur? Ef sá maður er framarlega í röðinni, segjum bara að maðurinn sem fékk flest atkvæði byði sig ekki fram aftur, þá má í rauninni líta þannig á að hann hafi bara ekkert boðið sig fram. Þá skuli telja allt upp á nýtt og upp getur komið allt annar hópur — allt, allt annar því þeir 25 sem voru kosnir nutu þess sem hann nýtti ekki af atkvæðum sínum í 1. sæti. Þannig að ef einn dettur út riðlast öll röðin. Ég veit ekki hvort menn hafi hugsað til enda hvaða niðurstöðu þetta gæti gefið. Ég lít svo á að ekki sé hægt að segja að við tökum bara þann næsta ef einn hættir við vegna þess að kerfið er þannig uppbyggt að þau atkvæði sem einn frambjóðandi nýtti ekki nýttust öðrum. Við það að einn hætti við að gefa kost á sér riðlast öll röðin.