139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[19:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir ágæta lýsingu á þessu frumvarpi. Hún er reyndar dálítið döpur, því að um er að ræða ákveðinn galla í lögum sem tiltölulega nýlega voru sett. Það er mjög slæmt að Alþingi skuli þurfa — því miður allt of oft — að leiðrétta lög sem hafa verið samþykkt. Það beinir sjónum að því hvort menn þurfi ekki að fara að vinna örlítið hægar, ekki vera að skutla málum hér í gegn með hraði, taka mál út úr nefnd í ágreiningi o.s.frv. Þetta er allt of algengt og ég legg til að menn fari sér eitthvað hægar í framtíðinni.

Ég hef ekki frekari spurningar um þetta en það er rétt skilið hjá mér að þetta er leiðrétting á því sem hafði miður farið áður í lagasetningu.