139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[19:58]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál.

Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna í landinu og varðar uppfyllingu samkomulags ríkisstjórnarinnar frá í desember síðastliðnum um víðtækar aðgerðir til að mæta þessum vanda. Á grunni samkomulagsins voru þann 15. júní síðastliðinn settar verklagsreglur fyrir lánveitendur á íbúðalánamarkaði um hvernig skyldi staðið að því að mæta vanda yfirveðsettra heimila. Íbúðalánasjóður er aðili að samkomulaginu og þarf vegna þess heimild til að færa niður veðkröfur sjóðsins á hendur einstaklingum. Frumvarpið fjallar um þetta og er gert ráð fyrir slíkri heimild fyrir Íbúðalánasjóð að því gefnu að uppreiknuð staða krafnanna miðað við 1. janúar 2011 sé umfram 110% af verðmæti fasteignar í eigu lántaka eða maka hans, auk nánari skilyrða sem fram koma í frumvarpinu. Heimild þessi er sett fram sem bráðabirgðaákvæði og gert er ráð fyrir að Íbúðalánasjóður geti tekið við umsóknum á grundvelli þess til 30. júní næstkomandi.

Niðurfærslur á veðkröfum munu einungis koma til greina vegna skulda sem stofnað var til vegna kaupa eða byggingar fasteigna fyrir 1. janúar 2009. Ekki verður heimilt að færa niður veðkröfur sem stofnað var til vegna lána til endurbóta á fasteignum, þ.e. lána sem voru umfram verðmæti hinnar veðsettu eignar við lánveitinguna. Samkvæmt frumvarpinu getur niðurfærsla veðkrafna í eigu Íbúðalánasjóðs numið að hámarki 4 millj. kr. fyrir einstakling og allt að 7 millj. kr. fyrir hjón, sambýlisfólk og einstæða foreldra. Skilyrði fyrir þessu er að lántaki eða maki hans eigi ekki aðrar aðfararhæfar eignir eða veðrými sem svarar að hluta eða öllu leyti til fyrirhugaðrar niðurfærslu á veðkröfum. Séu slíkar eignir fyrir hendi er fyrirhuguð niðurfærsla lækkuð sem því nemur.

Við afgreiðslu niðurfærslu um 4 eða 7 milljónir samkvæmt framanskráðu er búið að afnema ákvæði um að skoða greiðslubyrði af skuldum en það er hins vegar gert ef upphæðir niðurfærslu verða hærri. Ef veðsetning eignar eftir niðurfærslu miðað við þessi hámörk er enn yfir 110% af verðmati og greiðslubyrði lántakenda yfir 20% af heildartekjum þeirra er lagt til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að færa kröfur enn frekar niður og þá að hámarki um 15 millj. kr. hjá einstaklingi og 30 millj. kr. hjá hjónum, sambýlisfólki og einstæðum foreldrum.

Ég vek athygli á því að í frumvarpinu eru sett skilyrði um að afskriftir skulda geti ekki leitt til þess að veðsetning fari niður fyrir 110% af verðmæti fasteignar eða að greiðslubyrði af skuldum verði lægri en 18% af tekjum, þ.e. ef farið er í hærri tölur en þessar 4 og 7 milljónir.

Í frumvarpinu er sérstaklega fjallað um hvernig staðið skuli að verðmati fasteigna við þessar aðstæður og skal miða við fasteignamat eða markaðsverð þeirra, hvort sem er hærra. Telji Íbúðalánasjóður að skráð fasteignamat gefi ekki rétta mynd af verðmæti eignar skal hann á eigin kostnað afla verðmats löggilts fasteignasala, þ.e. Íbúðalánasjóður skal kosta það. Sé fasteign ekki fullbyggð skal Íbúðalánasjóður ávallt afla verðmats löggilts fasteignasala á eigin kostnað.

Lántakendur sem óska eftir niðurfærslu veðkrafna skulu sækja um til Íbúðalánasjóðs ef kröfur sjóðsins eru aftast í veðröð íbúðalána sem hvíla á fasteigninni en annars til viðkomandi kröfuhafa sem beinir þá umsókninni til sjóðsins ef þörf er fyrir aðkomu hans að niðurfærslunni. Umsókn skulu fylgja öll gögn sem áskilin eru af hálfu Íbúðalánasjóðs og skal umsækjandi staðfesta að allar upplýsingar séu veittar samkvæmt bestu vitund. Íbúðalánasjóður er reiðubúinn að taka á móti umsóknum um afskriftir og hefur raunar þegar fengið nokkur hundruð umsóknir sem þar eru til skoðunar með fyrirvara um samþykki frumvarpsins.

Ég hef rakið helstu efnisatriði frumvarpsins en vík nú að þeim kostnaði sem áætlað er að fylgi þessum aðgerðum.

Það er mat Íbúðalánasjóðs að hjá viðskiptavinum hans séu um 11.400 fasteignir yfirveðsettar og þar af muni eigendur um 9.160 íbúða njóta góðs af afskriftum lána samkvæmt frumvarpinu. Sjóðurinn áætlar að afskriftaþörf vegna frumvarpsins geti að hámarki orðið um 27,1 milljarður kr. og telur raunar það mat sitt vera í hærri kantinum. Þetta er í hærri kantinum er vegna þess að það á eftir að taka tillit til annarra aðfararhæfra eigna. Þannig er reiknað með að allir sem á því eiga rétt muni sækja um niðurfellingu skulda en sjóðurinn telur óvíst að svo verði, þ.e. margt bendir til þess að ekki muni allir sækja þarna um.

Ég ætla ekki að rekja í smáatriðum þá þætti sem áhrif geta haft á heildarniðurstöðu kostnaðar vegna afskrifta samkvæmt þessu frumvarpi en ýmislegt getur komið til. Eins og ég gat um áðan hefur Íbúðalánasjóður þegar fengið hátt á fjórða hundrað umsóknir eða raunar nokkur hundruð umsóknir, þær eru ríflega 400, um afskriftir samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps. Skoðun á þeim hefur leitt í ljós að afskriftaþörf verður í reynd um 20% lægri að meðaltali en nemur hámarksheimild til afskrifta. Þá má einnig nefna að þegar sjóðurinn keypti fasteignaveðlán af viðskiptabönkunum voru 20% af kaupverðinu sett í varasjóð til að mæta hluta afskrifta af lánunum þegar þar að kæmi.

Gert er ráð fyrir að 110%-leiðin falli undir þetta samkomulag og verði það niðurstaða lækkar heildarfjárhæð áætlaðra afskrifta um tæpa 1,5 milljarða kr. Ef ekki kæmi til það úrræði sem lagt er til með þessu frumvarpi var engu að síður áætlað að Íbúðalánasjóður þyrfti að afskrifa um 7 milljarða kr. hjá einstaklingum á næstu þremur árum. Fjármálaráðuneytið áætlar því að þegar upp er staðið aukist afskriftaþörf sjóðsins um 14,8 milljarða kr., nettó.

Það er mat fjármálaráðuneytisins að afskriftir á lánum einstaklinga vegna 110% úrræðisins verði samtals 21,8 milljarða kr. í ársreikningi 2010. Heildarafskriftaþörf sjóðsins árið 2010 er hins vegar áætluð um 35,6 milljarðar kr. vegna einstaklinga, vegna lögaðila og vegna lánasamninga við fjármálastofnanir og inni í því eru þessir 21,8 milljarðar.

Í fjáraukalögum ársins 2010 var veitt heimild til að efla eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs um allt að 33 milljarða kr. þannig að hún gæti orðið allt að 5% af áhættugrunni sjóðsins og að sjóðnum væri þar með gert kleift að mæta afskriftaþörf vegna útistandandi lánveitinga og áhrifum af ráðstöfunum vegna skuldavanda heimilanna. Samkvæmt nýjustu áætlunum er nú gert ráð fyrir að eigið fé sjóðsins aukist lítið eða ekkert í tengslum við þessar ráðstafanir og miðað við 33 milljarða kr. framlag úr ríkissjóði má ætla að gjaldfæra þurfi í ríkisreikningi fyrir árið 2010 afskrift sem svarar til nánast alls framlags ríkisins sem þegar hefur verið heimilað að veita til sjóðsins. Gangi þetta eftir kemur það fram sem aukin útgjöld og rekstrarhalli á ríkissjóði sem því nemur á árinu 2010. Verði þörf fyrir aukin eiginfjárframlög á komandi árum mun það á sama hátt leiða til afskrifta á rekstrarreikningi ríkissjóðs. Gera verður ráð fyrir því að fjármagna þurfi eiginfjárframlög með lántökum og því verður að gera ráð fyrir vaxtakostnaði af slíkum framlögum sem gæti numið 1,1 milljarði kr. á ári.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi er þessi lagabreyting lögð til vegna þeirra aðgerða sem stjórnvöld ákváðu að grípa til í þágu heimila í landinu sem telja má yfirskuldsett vegna húsnæðislána. Aðgerðirnar byggjast á umfangsmikilli greiningu sem gerð var á vanda heimilanna og samkomulagi við helstu hagsmunaaðila, lánastofnanir og lífeyrissjóði. Í heild er áætlað að lækkun íbúðaskulda vegna þessara aðgerða geti numið allt að 100 milljörðum kr. og þær snerti með beinum hætti fjárhag um 60 þúsund heimila. Með þessu mun draga úr vanskilum heimila við lánastofnanir. Heimilin fá aukið borð fyrir báru og því líklegt að eftirspurn í hagkerfinu muni aukast.

Við vissum alltaf að aðgerðir í þágu skuldsettra heimila væru kostnaðarsamar en við vissum líka að ef ekkert yrði að gert mundi það reynast samfélaginu dýrkeypt og kippa stoðunum undan fjölda heimila og fjölskyldna í landinu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Það er orðið afar brýnt að sjá fyrir endann á þeim aðgerðum sem eru svo mörgum heimilum nauðsynlegar til að rétta úr kútnum þannig að fólk geti á ný öðlast trú á framtíðina og sett sér markmið í lífinu sem snúast um annað og meira en næstu skuldaskil.

Frumvarpið sem ég mæli hér fyrir er að mínu mati vandað og vel ígrundað enda miklir hagsmunir í húfi þó að það verði að viðurkennast að slíkar aðgerðir eru alltaf viðkvæmar, hvernig þær hitta á einstaklinga, hvernig menn falla undir þær reglur sem settar eru á hverjum tíma og það er auðvitað erfiðleikarnir við það að setja svona lög.

Ég vonast til að frumvarpið hljóti góða umfjöllun í þinginu og sömuleiðis hjá hv. félags- og tryggingamálanefnd.