139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[20:10]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að vekja athygli einmitt á máli sem ég hef mjög oft komið inn á og hefur stundum vakið furðu mína í sambandi við umræðuna um skuldavanda heimilanna. Það er einmitt það að slík áföll eins og hér hafa dunið yfir á síðustu árum hafa dunið yfir ákveðin svæði landsins áður og jafnvel í miklu meira mæli, þar sem eignir hafa jafnvel fallið niður í hálfvirði á til þess að gera skömmum tíma á stórum svæðum eins og á Vestfjörðum. Við höfum búið við það sem erum utan höfuðborgarsvæðisins eða Stór-Reykjavíkursvæðisins kannski frekar að láti maður byggja fyrir sig íbúð má maður reikna með að hún falli bara á fyrsta ári, ef maður þarf að fara í endursölu, um 20%. Þannig hefur þetta verið í fjöldamörg ár. En það breytir ekki því að þarna er verið að reyna að hreinsa til í bankakerfinu og reyna að hraða þeirri hreinsun. Ég held að það sé afar mikilvægt að í staðinn fyrir að bíða með að þetta lendi endalaust í vandræðum sé aðeins reynt að skerpa á því. Það sem gert var með þessum samningi allra aðila í desember og í verklagsreglunum núna í janúar var að reyna að ná utan um og hraða öllum aðgerðum þannig að menn geti einmitt farið að stoppa og segja: Nú er þetta komið eins og við ætlum að reyna að búa um þetta og menn verða svo að bjarga sér þaðan í frá. Auðvitað verður það ekki auðvelt en það þarf engu að síður einhvern tímann að stoppa vegna þess að menn geta ekki reiknað með því eða endalaust verið að búast við betri úrlausnum.

Ég þakka einnig hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því að það er nákvæmlega þannig, miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið hjá þeim sem hafa skoðað það, að það virðist ekkert land í heiminum hafa gripið til jafnvíðtækra aðgerða í þágu heimilanna og Ísland, þ.e. að hér er verið að grípa til víðtækari aðgerða til að endurreisa hlutina. Auðvitað er það bundið við að við höfum verið með verðtryggingu sem hefur farið býsna illa með fólk og krónan okkar hefur verið erfið í þessu samhengi. (Forseti hringir.) Ég held að það sé mikilvægt að halda þessu á lofti.