139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[20:14]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta sé rétt sem kom fram varðandi Evrópu. Ég hef kannski sagt þetta eitthvað óskýrt en það er alveg rétt, það hefur orðið verðfall um allan heim raunar á eignum og menn hafa í sumum tilfellum verið í neikvæðri eignastöðu. Afleiðingarnar af því að vera með eins og við mjög margar yfirveðsettar eignir eru að markaðurinn deyr út líka í sambandi við íbúðalán. Menn geta ekkert hreyft sig, menn geta ekki gripið til aðgerða til að bjarga sér út úr erfiðri stöðu með því að fara úr stórum eignum og minnka þær. Það má kannski segja að það séu jákvæðustu áhrifin af þeim breytingum sem hér eru lagðar til.

Það er rétt sem fram kom að mánaðarlegar afborganir lækka ekkert endilega mjög mikið þó að höfuðstóllinn lækki vegna þess að þetta dreifist á mjög langan tíma og aðrar aðferðir hefðu hugsanlega, eins og innspýting á peningum, haft meiri áhrif.

Ég held að sá sem hér stendur og hv. þm. Pétur H. Blöndal deilum þeirri skoðun að eitt brýnasta velferðarmálið væri auðvitað að auka atvinnu og reyna að losa fólk út úr því atvinnuleysi sem hér er. Það er gríðarlega mikilvægt vegna þess að það áfall þegar fólk dettur úr kannski þokkalegum tekjum yfir í algjörar lágmarkstekjur og verður að búa við það í langan tíma raskar öllu heimilishaldi og öllum ráðstöfunartekjum.

Ég treysti á að þetta mál fari nú til félags- og tryggingamálanefndar og þar geta menn rætt og metið áhrifin af þessu og skoðað stöðuna. Það er alveg rétt sem hér var sagt, það eru gríðarlega miklir peningar hér undir en ef maður skoðar það í því samhengi að Íbúðalánasjóður er með 700 milljarða í íbúðarhúsnæði og hvað þeir hafa tapað akkúrat í þessum áföllum eru það sem betur fer ekki háar prósentur.