139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[20:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir ítarlega yfirferð yfir frumvarpið. Eins og fram kom í máli hans er það mikilvægur þáttur í því að ríkið geti staðið við sinn þátt af samkomulaginu við Samtök fjármálafyrirtækja og Landssamtök lífeyrissjóða um að afskrifa hluta af húsnæðisskuldum landsmanna sem eru með yfir 110% veðsetningu í húsnæði. Félags- og tryggingamálanefnd mun fjalla um málið strax í næstu viku enda vitum við að það er brýnt að koma því úrræði á laggirnar. Ýmsir óvissuþættir koma nú fram í kostnaðarumsögn frá fjármálaráðuneytinu varðandi fjárhagsstöðu sjóðsins og byggir það á nýrri fjárhagsáætlun Íbúðalánasjóðs. Töluverð óvissa ríkir um fjárhag sjóðsins og við munum sjá betur hvaða áhrif það mun hafa þegar búið verður að fara í afskriftir í öllu lánakerfinu. Þess er nú að vænta og við vonum að það muni hafa þau áhrif að það auðveldi fólki að greiða af lánum sínum og þá muni draga úr þeirri afskriftaþörf sem annars hefði orðið ef ekkert hefði verið gert. Það er því með engu móti hægt að meta nettóáhrifin af því núna en í yfirferð nefndarinnar munum við reyna að fá eins glögga mynd af stöðu sjóðsins og hægt er, enda er það á ábyrgð okkar á Alþingi að átta okkur á mögulegum fjárútlátum ríkissjóðs vegna Íbúðalánasjóðs sem og annarra sjóða, stofnana og útgjaldaliða ríkisins. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir gott frumvarp og góða yfirferð yfir málið.