139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[20:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ágæta ræðu. Hann fór nokkuð í gegnum þetta. Hann sagði í ræðu sinni að engar eignir fyndust lengur í búinu. Þá vil ég spyrja hvort hann hafi einhverja vísbendingu eða einhverjar upplýsingar um að við rannsókn hafi komið í ljós að eignum hafi verið skotið undan áður?

Það er nefnilega þannig, frú forseti, eins og ég hef margoft bent á, að það er veila í hlutabréfaforminu og við það geta myndast gífurlegir peningar sem ekki eru til. Menn láta peninga fara hring eftir hring, mynda keðju af fyrirtækjum sem bítur í skottið á sér, jafnvel með eignarhaldi í Tortóla eða Lúxemborg, þannig að það sé ekki vitað. Og peningarnir fara hring eftir hring og sýna mikið eigið fé sem ekki er til. Þetta hefur orðið til þess að hér varð hrun og þegar öll sú mikla auðlegð hrundi var ekkert eftir. Þeir peningar fóru ekki neitt, þeir voru aldrei til. Þeir voru sýndir í bókunum og ég hef ansi sterkan grun um að það sem menn töldu vera eignir hafi ekki verið neinar eignir. Menn voru að lána til kaupa á hlutabréfum. Þá töldust lánin sem eign, en hlutabréfin ekki sem skuld. Þetta er einfaldasta formið af því að búa til peninga sem ekki eru til, þeir fara í hring.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi eitthvað fyrir sér í því að fullyrða að engar eignir hafi lengur verið í búunum sem voru gjaldþrota.