139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[20:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður veit náttúrlega að í nefndinni var rætt um fyrirbæri sem heitir árangurslaus kyrrsetning. Hún getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þann sem reynt er að kyrrsetja hjá. Þetta er náttúrlega alveg furðulegt fyrirbæri og ég mun koma inn á það á eftir í ræðu minni hvort ekki sé ástæða til að skoða það nákvæmar en gert hefur verið.

Ég hef grun um að í flestum tilfellum hafi aldrei verið neitt í þessum fyrirtækjum, þau hafi verið tóm. Þau sýndu eitthvert gífurlegt eigið fé, bankarnir sýndu meira að segja gífurlegt eigið fé. Ég veit ekki hvað varð af því, það bara hvarf, enda var það ekki til. Það var falið í alls konar hringjum, peningarnir fóru í hring, sami peningurinn notaður aftur og aftur og látinn sýna í hvert skipti aukið eigið fé. Ég held að menn ættu frekar að snúa sér að því að laga þessa veilu í hlutabréfaforminu en því miður er hún ekki einskorðuð við Ísland, heldur er hún um allan heim. Sennilega er efnahagur heimsins oftalinn um þó nokkuð háar prósentur, kannski 10, 15 eða 20% vegna þess arna. Krosseignarhald, raðeignarhald, lánveitingar þvers og kruss til kaupa á hlutabréfum þvers og kruss og samfléttun hlutafélaga er þvílíkt útbreidd, sérstaklega í Japan, Kóreu og í Þýskalandi, að örugglega er um mikla oftalningu að ræða. Það er því ekkert víst að til staðar hafi verið einhver eign þó að fyrirtæki hafi sýnt glimrandi góða eiginfjárstöðu.