139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[20:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það er mikilvægt að leiðrétta ýmsa markaðsbresti sem stuðla að fjármálakreppum á hinum alþjóðlega vettvangi. Það breytir því hins vegar ekki að full ástæða er til þess að fá skattrannsóknarstjóra heimildir til að kyrrsetja eignir þegar rökstuddur grunur er um alvarleg skattalagabrot. Það hefði fyrir löngu átt að vera búið að færa honum þær heimildir því við verðum að auka aðhald og aga í skattamálum eins og á svo mörgum öðrum sviðum í samfélaginu.

Hvað varðar árangurslausa kyrrsetningu er það rétt hjá hv. þingmanni að við ræddum hana talsvert. Það er fyrirbæri sem hefur lengi verið í lögum og er eðlilegt að menn velti því fyrir sér því að á grundvelli þess er hægt að knýja fram gjaldþrotaskipti hjá einstaklingum og lögaðilum og það er gríðarlega alvarleg aðgerð. Það heyrir hins vegar til algerra undantekninga að því úrræði hafi verið beitt, en það getur verið ástæða til að beita því. Telji menn til að mynda að sá sem í hlut á hafi gripið til óeðlilegra ráðstafana áður en að kyrrsetningaraðgerðunum kom þá kunna að vera ástæður til að knýja fram gjaldþrot svo að virk verði þau lagaúrræði sem við höfum hér sett, og ég fékk raunar lengt hér á síðasta þingi, fyrir skiptastjóra til þess að rifta aftur í tímann þeim óeðlilegu gjörningum sem þeir telja sig komast að við rannsókn á búinu. Í slíkum tilfellum getur verið nauðsynlegt að beita þessu úrræði, en ég er sammála hv. þingmanni um að það er sérstakt og á að heyra til algerra undantekninga.