139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

hagvöxtur.

[15:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi ber að hafa fyrirvara á samtímamælingum Hagstofunnar eins og reynslan hefur sýnt okkur. Ef hv. þingmenn skoða t.d. mat Hagstofunnar sjálfrar á 1. og 2. ársfjórðungi síðasta árs og svo mat Hagstofunnar í byrjun þessa árs á þeim hinum sömu ársfjórðungum sjá þeir umtalsverðar breytingar. Núna endurskoðar Hagstofan mat sitt á 3. ársfjórðungi og hækkar hagvöxtinn á þeim ársfjórðungi frá því sem hún spáði undir lok ársins, úr 1,5% í 2,2% í plús á 3. ársfjórðungi. En hún spáir því að 4. ársfjórðungurinn hafi verið slakur og það eru að sjálfsögðu vonbrigði og gefur ástæðu til að ætla að árið í heild komi heldur lakar út en menn höfðu vonast til. Þau kurl eru að sjálfsögðu ekki komin til grafar og reynslan hefur sýnt okkur, ekki síst við óvissuaðstæður sem þessar, að það ber að taka samtímamælingum af þessu tagi með miklum fyrirvara. Hagstofan leiðréttir jafnvel mörg ár aftur í tímann endanlega og raunverulega útkomu á einstökum ársfjórðungum og jafnvel árum í heild.

Við hefðum öll viljað sjá kraftmeiri bata og betri og skýrari merki og fullvissu um að hann væri genginn í garð, en ég held að samt sé enginn vafi á því að umsnúningur er að verða í hagkerfinu. Samdrættinum er lokið en spurningin er hversu öflugur batinn verður. Það eru góðar horfur hjá ýmsum greinum, eins og við sjáum í umtalsverðri aukningu í ferðaþjónustu. Árið byrjar vel og flest sem teiknar þar til metárs sem að sjálfsögðu hefur jákvæð áhrif á hagkerfið okkar. Útflutnings- og samkeppnisstarfsemin gerir það almennt gott en það vantar að koma litlu hjólunum úti um allt á meiri snúning. Þar held ég að bæði þær tafir sem orðið hafa á skuldaúrvinnslu heimila og ekki síður fyrirtækja séu eitt ásamt með fleiru sem þvælist fyrir okkur.

Loks er auðvitað ljóst að það að koma landinu aftur í eðlileg samskipti við umheiminn og að opna aðgang að erlendum fjármálamörkuðum, (Forseti hringir.) koma fjárfestingarverkefnum af stað, er allt hluti af þeirri endurreisn sem hér þarf að verða.