139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er nú nærtækara fyrir hv. þingmann að beina máli sínu einfaldlega til efnahags- og viðskiptaráðherra og ræða við hann um það hvernig hann fjallar um þessi mál en að fara þá fjallabaksleið að spyrja mig hér um álit á því hvað mér finnist. (SDG: Vonandi er …)

Ég skal tala fyrir mín sjónarmið í þessum efnum. Ég er sammála því að við þurfum að losna við gjaldeyrishöftin og vinda ofan af þeim. Hvað þarf til í þeim efnum? Það liggur nokkuð ljóst fyrir. Við þurfum traust og vel fjármagnað fjármálakerfi sem hefur bæði eiginfjárstyrk og lausafjárstyrk til að takast á við þær breytingar sem verða samfara skrefum í afnámi gjaldeyrishafta. Við þurfum gjaldeyrisforða, við þurfum áætlun um skuldastýringu og greiðslur landsins og afborganir af erlendum lánum sem rímar við þau skref í afnámi gjaldeyrishafta sem tekin verða. Við þurfum væntanlega að vinna í því að ná niður snjóhengjunni sem hangir yfir, hinar miklu krónueignir erlendra aðila inni í hagkerfinu, í markvissum skrefum. Þannig hlýtur áætlun um afnám gjaldeyrishafta í áföngum að líta út.

Hvað mig varðar er það skoðun mín að íslenska krónan verði okkar gjaldmiðill a.m.k. um mörg ár í viðbót og að allar aðrar hugmyndir séu óraunhæfar. Ég mun ekki standa að mótun neinnar gjaldeyris- eða peningamálastefnu sem ekki gerir ráð fyrir þeim jafngilda valkosti öðrum að íslenska krónan verði gjaldmiðill okkar áfram og ég trúi því að það sé vel hægt. Það kallar á mikinn aga og vönduð vinnubrögð. Við munum ekki hafa efni á því, Íslendingar, að endurtaka þau hroðalegu mistök sem hér voru gerð á umliðnum árum ef við ætlum að byggja hagkerfi okkar til frambúðar á okkar eigin gjaldmiðli. Það kallar á aga og vönduð vinnubrögð en það er að sjálfsögðu hægt. Krónan hefur á margan hátt nýst okkur vel í glímunni við erfiðleikana. Án hennar og þeirrar aðlögunar sem að hluta til hefur orðið í gegnum gengið (Forseti hringir.) er enginn minnsti vafi á því í mínum huga að atvinnuleysið væri meira og verðmætasköpunin minni í hagkerfinu ef hennar hefði ekki notið við á undangengnum missirum.