139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

bólusetning barna gegna eyrnabólgu og lungnabólgu.

[15:21]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Þann 3. febrúar sl. birtist á vef landlæknisembættisins tilkynning um að fresta verði bólusetningum ungbarna gegn eyrnabólgu og lungnabólgu vegna kæru og endurútboðs á bóluefninu. Þetta eru mikil vonbrigði.

Undirbúningur þessa verkefnis hófst fyrir tæpu ári. Alþingi samþykkti á síðasta sumri þingsályktun um að fara í þetta mikilvæga verkefni og veitt var fé á fjárlögum þessa árs til að tryggja að öll börn sem fædd eru á þessu ári, 2011, verði bólusett. Bólusetningin átti að hefjast með reglubundnum hætti 1. apríl nk.

Bóluefnið var boðið út í haust, tilboð opnuð í desember, tvö tilboð bárust og gengið var til samninga við annan aðilann. Hinn aðilinn hefur nú kært með þeim afleiðingum að kærunefnd útboðsmála felldi útboðið úr gildi og nú þarf að bjóða út aftur eins og ég sagði. Þetta þýðir að bólusetningin tefst í a.m.k. tvo til þrjá mánuði að mati sóttvarnalæknis sem hefur engu að síður lýst því yfir að hann vonist til að hægt verði að bólusetja öll börn fædd á þessu ári.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu mikilvægt verkefni þetta er, hversu mikið vinnutap og hversu mikill sársauki og ónæmi fyrir sýklalyfjum sparast með þessum bólusetningum. Nokkurra mánaða töf getur orðið yngstu börnunum mjög dýrkeypt því að hámarksárangur næst aðeins ef byrjað er að bólusetja börn við þriggja mánaða aldur. Ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. velferðarráðherra hvernig hann hyggst tryggja að þau börn sem fædd eru á tímabilinu 1. janúar til loka mars fái að njóta þess hámarksárangurs sem bólusetningin getur veitt.