139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

skólamál.

[15:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Staðan núna á innritunarmálum er sú að gerðar voru ákveðnar breytingar í fyrra og þær voru gerðar ekki síst út af því ástandi sem hafði myndast árið áður. Þá var í fyrsta skipti unnið samkvæmt nýjum lögum um framhaldsskóla og fræðsluskyldu þar sem stjórnvöld taka í raun og veru að sér að tryggja öllum nemendum yngri en 18 ára skólavist í framhaldsskóla. Það verður að segjast eins og er að nemendur voru langt fram eftir sumri að fá inni í framhaldsskólum og því var talið nauðsynlegt að yfirfara og endurskoða kerfið þá. Það var einfaldað, nemendur fengu núna val um tvo skóla en ekki fjóra eins og áður og tekin var upp svokölluð forinnritun sem einmitt fer að hefjast núna, við munum endurtaka þann leik. Síðan var settur á ákveðinn hverfiskvóti, þ.e. 45% pláss í skólum voru eyrnamerkt nærumhverfinu eða hverfi skólans.

Þetta hafði fyrst og fremst áhrif í Reykjavík, þ.e. um leið og komið var út fyrir sveitarfélagið Reykjavík má segja að flestir skólar hafi tekið inn nemendur úr sínu nærumhverfi langt yfir þessum mörkum.

Við höfum notað færið og farið yfir þetta. Staðreyndin virðist vera sú að þetta hafi haft tiltölulega lítil áhrif í raun á inntöku skólanna en þetta hefur haft áhrif á inntöku í nokkrum skólum. Við höfum hins vegar gert tillögur núna um að fylgja sama fyrirkomulagi og fyrr en lækka hlutfallið niður í 40%, m.a. út af þeirri gagnrýni sem hefur komið fram. Við teljum að það eigi þá ekki að hafa veruleg áhrif á út frá árangri hvort nemendur komist inn í skóla eða ekki en hins vegar sé tryggt, því að við vorum auðvitað með mörg dæmi um það, að nemendur lendi ekki í skólum nánast í hinum bæjarendanum í Reykjavík sem var ástæðan fyrir því að við lögðum þetta til í tilraunaskyni.

Útkoman síðast var sú að 82% nemenda fengu inni í fyrsta vali í sínum draumaskóla. 95% nemenda fengu inni í vali 1 eða 2. Við teljum því (Forseti hringir.) að þær breytingar sem voru gerðar á innrituninni síðast hafi í heildina skilað góðum niðurstöðum en við erum hins vegar áfram með þær í skoðun núna og munum m.a. meta hvernig málin líta út eftir forinnritun.