139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

eftirlit menntamálaráðuneytisins með samningum.

[15:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað umtalsvert margir samningar sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gert við skólastofnanir, menningarstofnanir — tímabundnir samningar um tímabundin verkefni, stundum jafnvel ekki ákveðin af ráðherra á hverjum tíma heldur fjárlaganefnd og síðan farið í samningagerð. Það er því mjög erfitt að segja að það sé allt í lagi, ég mundi ekki treysta mér til að fullyrða það.

Við höfum hins vegar tekið þessar athugasemdir mjög alvarlega og lítum svo á að það sé hlutverk okkar að fylgjast vel með. Ég leyfi mér því að fullyrða að við munum stunda og stundum mjög öfluga eftirfylgni. Við fylgjumst með því að samningum sé framfylgt og að sem best sé farið með fé skattborgaranna. Það er okkar hlutverk. Ég lít svo á að þetta sé eitt það mikilvægasta hlutverk sem við höfum að sinna um leið og það skiptir máli að við getum leyft fjölbreytninni að blómstra og byggt upp starfsemi um land allt í gegnum samninga. (Forseti hringir.) Ég held að markmiðin séu mjög skýr og við tökum þau mjög alvarlega.