139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

athugasemdir frá sveitarstjórn Flóahrepps.

[15:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem einmitt hingað upp til að ræða fundarstjórn forseta. Það var mjög mikilvægt að benda á þetta bréf og hver viðbrögð frú forseta yrðu við því. En síðan sýnist mér að hér sé komin efnisleg umræða og ég vil beina því til hæstv. forseta að nauðsynlegt sé að setja á umræðu um þetta mál. Það voru mun fleiri þingmenn en þeir tveir sem nú hafa komið upp og farið nokkuð misjafna leið að því að biðjast afsökunar — það er erfitt að biðjast afsökunar, að því er virðist, í íslensku samfélagi í dag. Menn halda áfram að fara með rangfærslur. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir fór með þær rangfærslur að hún gæti hugsanlega beðið Flóamenn afsökunar en Skeiða- og Gnúpverjamenn alls ekki — og í máli hennar var sá ágæti maður Gunnar Örn Marteinsson orðinn Marinósson, það er kannski dæmi um hve rangfærslurnar eru miklar og hve menn setja sig illa (Forseti hringir.) inn í málin áður en þeir hlaupa upp í pontu Alþingis. (Forseti hringir.)

Ég legg til, frú forseti, að við tökum þetta mál fyrir í efnislegri umræðu.