139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[15:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp um kyrrsetningar eigna þar sem eru því miður afskaplega opnar heimildir til ríkisvaldsins og byggja á því að menn treysti því að stjórnsýslan sé skipuð góðum og gegnum mönnum, sem hún eflaust er. Ég mun greiða atkvæði gegn þessu vegna þess um hve opna heimild er að ræða. Ég legg til að samflokksmenn mínir geri það sömuleiðis í þessari atkvæðagreiðslu vegna þess að ég tel að verið sé að opna á heimildir sem verði galopnar og stjórnsýslan gæti notað til að kúga fram niðurstöðu í deiluefnum þar sem hún er að deila við atvinnulífið um túlkun á skattalögum. Hún gæti þá hótað því að fara í kyrrsetningarmál jafnvel við fólk sem er í stjórnum viðkomandi fyrirtækja.