139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[15:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er gengið til atkvæða um frumvarp til laga um heimildir til kyrrsetningar eigna, heimildir til skattrannsóknarstjóra. Í meðförum þingsins, bæði á fyrra vetri og á þessum, hafa verið sett inn ný ákvæði til að gæta meðalhófs og varúðar í lagasetningunni, bæði um rétt þeirra sem fyrir henni verða til að skjóta máli til dómstóla og sömuleiðis hefur heimildin verið bundin því að brotin snúi að 262. gr. almennra hegningarlaga, þ.e. að um sé að ræða mjög alvarleg brot gegn lögum. Ég tel að með því séu kröfur um meðalhóf uppfylltar auk þess sem sambærileg heimild er í lögreglulögum og því í raun og veru aðeins verið að færa öðru stjórnvaldi sömu heimildir og hér er löng reynsla fyrir. Og auðvitað er sjálfsagt að skattyfirvöld hafi tæki og tól til að tryggja að menn geti ekki skotið undan því sem rökstuddur grunur er um að þeir hafi tekið (Forseti hringir.) sér úr sjóðum almennings ófrjálsri hendi.