139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

skólatannlækningar.

505. mál
[15:54]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er verið að ræða um skólatannlækningar, hvort ástæða er til að taka þær upp að nýju á Íslandi. Eins og kunnugt er voru hefðbundnar skólatannlækningar stundaðar hér um árabil en þær voru lagðar niður í Reykjavík vorið 2002. Ber að geta þess að skólatannlækningar voru lagðar af víða annars staðar mun fyrr og víða voru þær þannig að þær voru aldrei inni í skólunum sem slíkar heldur í tengslum við þá.

Það er sjálfsagt að skoða það á hverjum tíma, og það hefur líka verið rætt núna, hvort hefja skuli skólatannlækningar að nýju og athuga jafnframt hvort þær eigi þá að ná til barna á forskólaaldri til viðbótar við grunnskólaaldurinn.

Um þessar mundir eru velferðarráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands að undirbúa samningsgerð við almenna tannlækna með það að markmiði að auka niðurgreiðslur vegna eftirlits, forvarna og tannviðgerða barna á aldrinum 0–18 ára og jafnframt að tryggja fjórum árgöngum barna ókeypis forvarnaskoðun. Það er markmið velferðarráðuneytisins að ná samningum við tannlækna sem tryggja ókeypis forvarnaskoðun fyrir fjóra árganga, eins og ég segi, í stað þriggja árganga áður, þ.e. að börn sem eru 3 ára, 6 ára, 12 ára og 15 ára geti mætt í skoðun án sérstakrar greiðslu. Þá vonast ég til þess að samkomulag náist um eina gjaldskrá vegna tannlækninga barna sem geti tryggt að kostnaðarþátttaka hins opinbera verði allt að 75% af raunkostnaði fyrir allar almennar tannlækningar barna.

Þetta eru samningsmarkmið ráðuneytisins, sem Sjúkratryggingum Íslands hefur verið falið að vinna eftir í viðræðum við tannlækna, en auðvitað geta einhverjar breytingar orðið á útfærslum í samningsferlinu og niðurstöður liggja auðvitað ekki fyrir. En ég er bjartsýnn á að viðræður við tannlækna geti hafist fljótlega og að þær muni skila góðum samningi sem leiðir til bættrar tannheilsu hér á landi, ekki síst til barna á forskóla- og skólaaldri.

Það hefur verið vandkvæðum háð, þegar menn eru að setja inn svona prósentur, eins og 75% af einhverri ákveðinni tölu, að ef gjaldskráin er frjáls þá getur maður engan veginn staðið við það. Ef aðgerð kostar 10 þúsund á einum stað en 15 þúsund á öðrum er verið að greiða með ólíkum hætti til viðkomandi tannlækna þannig að það er mikilvæg forsenda að samningar náist um gjaldskrá varðandi tannlækningar ef við ætlum að bæta ástandið.

Hv. þingmaður spyr hvort fyrir liggi rannsóknir á því hvort tannheilsu skólabarna hafi hrakað frá því að skólatannlækningar voru aflagðar og hann svaraði því í raun og veru sjálfur. Síðan skólatannlækningar lögðust niður að fullu hefur verið gerð ein landsrannsókn á tannheilsu grunnskólabarna í 1., 7. og 10. bekk og það var rannsóknin „Munnheilsa Íslendinga“, betur þekkt sem „Munnís“, en hún var gerð að frumkvæði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins skólaárið 2004–2005, hún er orðin það gömul. Í rannsókninni var ekki lagt mat á það sérstaklega hvort tannheilsu reykvískra skólabarna hefði hrakað frá því sem var þegar Skólatannlækningar Reykjavíkur voru starfræktar en tannheilsa barna á Íslandi var almennt lakari en búist hafði verið við — og það er auðvitað það sem er mikilvægast að draga fram.

Má sem dæmi nefna að 12 ára börn á Íslandi voru með tvöfalt fleiri tannskemmdir að meðaltali en börn á sama aldri í Svíþjóð og rúmlega 38% 15 ára unglingspilta á Íslandi voru með glerungseyðingu á einhverri tönn. Ekki liggja fyrir aðrar eða nýrri rannsóknir á því hvernig tannheilsa skólabarna hefur þróast síðustu árin þótt ýmsar vísbendingar veki grun um að henni hafi hrakað. En það ber líka að fylgja þessu eftir, af því að ég nefndi að eftirlitið hafi verið ókeypis, að þar hefur ekki náðst í nema 70% af þeim sem eiga þó rétt á ókeypis skoðun. Það er augljóst að aðhald og eftirfylgni vantar með skipulegum hætti og auðvitað geta skólarnir skipt þar miklu máli, jafnvel þó að tannlæknastólar verði ekki færðir inn í skólana. Það kemur fram í þessum rannsóknum, og hefur raunar komið fram í öðrum skýrslum, að það er dökkur blettur á íslensku heilbrigðiskerfi hvernig við sinnum tannheilsu, og þá sérstaklega barna.

Hv. þingmaður spyr einnig hvort gerð hafi verið kostnaðargreining á því að hefja skólatannlækningar að nýju. Á síðasta ári var áætlaður kostnaður við fullbúnar tannlæknastofur í helmingi grunnskóla landsins, þ.e. í 88 grunnskóla, 4–4,5 milljarðar kr., um 2 milljarðar í stofnkostnað og 2,5 milljarðar í árlegan rekstrarkostnað. Til samanburðar má nefna að útgjöld Sjúkratrygginga Íslands vegna almennra tannlækninga barna á aldrinum 0–18 ára voru rúmar 530 millj. kr. árið 2010.

Að lokum spyr hv. þingmaður hvernig þessum málum sé almennt háttað annars staðar á Norðurlöndum. Því er til að svara að á öðrum Norðurlöndum er löng hefð fyrir því að tannlæknaþjónusta við börn sé hluti af almennri heilbrigðisþjónustu sem veitt er af ríki og sveitarfélögum. Ýmist er boðið upp á tannlæknaþjónustu fyrir börn í skólanum eða utan hans á stofum sem reknar eru af hinu opinbera sem yfirleitt eru viðkomandi sveitarfélög. Staðsetning þessara opinberu tannlæknastofa er sjaldnast bundin við skólana enda þjóna þær einnig börnum á forskólaaldri. Almenn tannlæknaþjónusta fyrir börn er þeim alls staðar að kostnaðarlausu á öðrum Norðurlöndum. Öll þessi framkvæmd er þó talsvert breytileg innan landanna (Forseti hringir.) þar eð áherslur sveitarfélaga eru mismunandi. Reglur um tannréttingar eru einnig breytilegar.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta svari fyrirspurn hv. þingmanns um þetta mikilvæga mál.