139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

skólatannlækningar.

505. mál
[16:03]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Stórt er spurt og fátt um svör þegar spurt er um rökin fyrir tannlækningum utan kerfis. Sá sem hér stendur hefur talað fyrir því að þetta eigi að vera inni í kerfinu og hefur einmitt aldrei séð rökin fyrir því að þetta sé ekki flokkað eins og hver annar heilsufarsþáttur. Það kann að vera að þarna hafi þetta þróast á þann veg, eins og ýjað var að í fyrirspurn hv. þingmanns, að það hafi orðið einkarekstur á tannheilsu sem er út af fyrir sig áhyggjuefni, a.m.k. ef við náum ekki að tryggja að við séum kaupendur að þjónustunni þannig að við getum ráðið við að veita hana með fullnægjandi hætti. Svarið er ekki skýrt hvað þetta varðar.

Aftur á móti er full ástæða til að leita lausna og nú er verið að gera atlögu að því í samningum að reyna að ná utan um þetta þannig að þeir peningar sem við höfum þó sett í málið nýtist til málaflokksins. Þeir hafa ekki einu sinni nýst að fullu, einfaldlega vegna þess að menn hafa ekki náð viðunandi samningum um hvernig halda eigi utan um þetta.

Mér finnst mikilvægt núna þegar við ræðum þetta mál varðandi tannheilsu almennt að ræða annan þátt sem tengist þessu, sem er orsök þess hve tannskemmdir eru miklar. Það er í sjálfu sér ekki þannig að við ættum að vera með tannviðgerðir sem aðalatriði. Það eru forvarnirnar og hin gríðarlega mikla sykurneysla sem er á Íslandi sem við þurfum að taka á og ræða, bæði í víðara samhengi en ekki síður hvað varðar tannheilsu. Það skiptir mjög miklu máli að við reynum að fyrirbyggja tannskemmdirnar, að við reynum að haga málum á þann veg að fólk þurfi ekki á jafnmiklum tannviðgerðum að halda og útlit er fyrir miðað við þá stöðu sem nú er.

Hún er líka mikilvæg — þó að menn væru ekki með skólatannlækningarnar í skólunum eins og þær voru áður — sú skólahjúkrun sem er enn við lýði og ástæða væri til að efla, bæði í forvörnunum en ekki síður til að fylgja því eftir að foreldrar sinni því að börnin fari til tannlæknis.