139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

rekstur innanlandsflugs.

502. mál
[16:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Það brennur mjög á íbúum þessa lands hversu álögur hafa aukist á innanlandsflug og eru að aukast, sumpart af eðlilegum ástæðum enda hagur samfélagsins verri en verið hefur um langt árabil og er óþarfi að rekja þær mannlegu hamfarir allar. Hins vegar telur sá sem hér stendur að innanlandsflug á Íslandi sé partur af almenningssamgöngum og á það beri að líta sem slíkt. Sakir veðurs og vega komast fjölmargir landsmenn ekki til meginþjónustumiðstöðvar Íslands, sem er Reykjavík, öðruvísi en með flugi og er þar hægt að nefna vegamál á sunnanverðum Vestfjörðum og reyndar einnig víða á Austurlandi. Fyrir þær sakir og reyndar fleiri er innanlandsflugið partur af almenningssamgöngum og verður að vera það um alla framtíð, alla vega miðað við það veður sem við Íslendingar búum við — og reyndar miðar líka hægt í vegamálum þó að mörgum grettistökum hafi þar verið lyft á undanförnum árum og ber að þakka fyrir þau.

Sá sem hér stendur, frú forseti, fékk, í krafti formennsku sinnar í samgöngunefnd, fulltrúa innanlandsflugs og fulltrúa þeirra bæjarfélaga sem hafa mestra hagsmuna að gæta á fund í nýliðinni viku. Þar komu fram verulegar áhyggjur, jafnt heimamanna sem flugrekenda, af því hvernig á málum innanlandsflugs er haldið hvað álögur snertir og eins hve umræðan um Reykjavíkurflugvöll hefur verið einsleit af stjórnmálamönnum í Reykjavík á undanförnum árum. Það gæti sett innanlandsflug í mikla hættu ef af þeim áformum verður að flytja það til Keflavíkurflugvallar eða eitthvert annað.

Ég spyr því hæstv. innanríkisráðherra til hvaða aðgerða hann hyggist grípa á næstu missirum til að efla rekstur innanlandsflugs hér á landi, ekki síst í ljósi þess að um er að ræða, að mati þess sem hér stendur og mun fleiri, mjög mikilvægar almenningssamgöngur og eitt stærsta öryggisatriði þjóðarinnar — 430 landsmenn fara með sjúkraflugi á hverju ári, það er meira en eitt flug á hverjum degi. Um helmingur þess fólks er í algeru neyðarflugi, sumpart upp á líf og dauða, þ.e. 2 þúsund Íslendingar á hverjum áratug (Forseti hringir.) sem nota sér þessa brýnu öryggisþjónustu sem ber að hlúa að.