139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

rekstur innanlandsflugs.

502. mál
[16:16]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég held að innanlandsflugið hjá okkur sé almennt ekki slakt miðað við önnur lönd. Ég held að óhjákvæmilegar breytingar hafi orðið á innanlandsfluginu á síðustu áratugum. Það er að sjálfsögðu vegna þess að við erum með miklu betra vegakerfi en áður, búin að gera jarðgöng og bílarnir eru líka miklu betri en þeir voru. Nú er boðið upp á GSM-símasamband nánast allan hringinn þannig að menn geta nýtt sér tímann í bílunum til að tala í símann með handfrjálsum búnaði. Það er því ýmislegt sem hefur skekkt samkeppnisstöðuna milli innanlandsflugsins og þess að nota einkabílinn. Það má vera að með hækkandi bensínverði fari fólk að nota flugið meira.

Ég vil líka af þessu tilefni koma því á framfæri að framsóknarmenn hafa stutt það að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni. Við teljum að það sé mikilvægt m.a. vegna nýbyggingar Landspítala – háskólasjúkrahúss, að í því felist talsvert mikið öryggi að geta lent nálægt slíku hátæknisjúkrahúsi sem rísa mun bráðlega.