139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

rekstur innanlandsflugs.

502. mál
[16:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Það ber að þakka þessa mikilvægu umræðu. Ég þakka hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir svör hans og ekki síst þá skoðun að miðstöð innanlandsflugs verði áfram í Reykjavík, sem næst stjórnsýslunni, enda eru meginrökin fyrir því að hafa stjórnsýsluna á einum stað þau að aðgengi fólks að henni sé tryggt hvar sem það býr á landinu.

Ég vil nota þær mínútur sem ég á eftir til að spyrja enn frekar um þær álögur sem flugrekendur og þar með flugfarþegar hafa töluverðar áhyggjur af. Flugið hefur verið í sókn á undanliðnum árum. Þvert á það sem menn hafa haldið fram hefur að meðaltali verið 3% aukning í innanlandsflugi á Íslandi frá árinu 1971 og á undanliðnum árum hefur farþegum í farþegaflugi reyndar fjölgað umtalsvert þrátt fyrir bætta vegi. Það er hjásaga að það séu fyrst og fremst embættismenn úr Reykjavík sem fljúgi um landið því að 60% af farþegunum eru fólk sem greiðir sjálft fyrir miðann sinn en 40% koma frá fyrirtækjum og stofnunum.

Spurningin er þessi, og hún er kannski meginspurningin: Hefur sú breyting á stofnanakerfi í tengslum við flugið gert það að verkum að sjálfkrafa hefur orðið hækkun á ýmsum gjöldum?

Flugrekendur halda því fram að með því að skipta kerfinu í fluginu á milli Flugmálastjórnar annars vegar og Isavia hins vegar, sem síðan hefur sameinast Keflavíkurflugvelli, hafi álögur sjálfkrafa hækkað og reikningarnir séu nú orðnir tveir í staðinn fyrir einn áður, að báðir hafi hækkað um 100%, svo ég vitni beint í ummæli flugrekenda á téðum fundi samgöngunefndar á fimmtudaginn var. Hefur hagræðing hins opinbera (Forseti hringir.) flust yfir í reikningshald flugrekenda?