139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

framkvæmdir í vegamálum á Suðvesturhorninu.

523. mál
[16:51]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu um framkvæmdir á suðvesturhorninu, þær eru löngu tímabærar og hefði átt að ræða fyrr. Ég hafna algjörlega þeirri nálgun sem er orðin hér í vegaframkvæmdum. Félagasamtökin Betri byggð hafa sýnt fram á það að umferðartafir á suðvesturhorninu kosta þjóðarbúið tugi milljarða á hverju ári. Það kostar þjóðarbúið ekki neitt að þurfa að keyra Víkurskarð frekar en Vaðlaheiðargöng þannig að forgangsröðunin er alveg kolröng.

Eitt meginvandamálið við skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu er svo að sjálfsögðu flugvöllurinn sem þvælist fyrir. Ég leyfi mér að minna á að Kaffi París afgreiðir miklu fleiri á hverjum einasta degi á sínum 500 fermetrum en allur Reykjavíkurflugvöllur sem tekur meira land en öll Reykjavík vestan Snorrabrautar. Ef flugvallarlandið væri selt undir byggingarland væri hægt að fjármagna vegaframkvæmdir á öllu landinu 20 sinnum miðað við það sem nú er í áætlunum. Ég skora einfaldlega á hæstv. samgönguráðherra að vera framsýnn og stórsýnn í samgöngumálum, ekki velta sér endalaust upp úr einhverjum vegatollum eða ekki vegatollum. Það er hægt að leysa málin (Forseti hringir.) miklu auðveldara en svo.