139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

framkvæmdir í vegamálum á Suðvesturhorninu.

523. mál
[16:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér á sér stað um samgönguframkvæmdir á suðvesturhorninu. Hins vegar ítreka ég að við forgangsröðum samgönguverkefnum í samgönguáætlun og að eftir henni er unnið. Framlag til samgöngumála á þessu ári er 6 milljarðar. Ef við ætlum að taka inn einhver verkefni upp á 40 milljarða segir það sig alveg sjálft að annaðhvort verður að endurraða í samgönguáætluninni eða bæta verulega í.

Út af umræðu um vegatolla og framkvæmdir á suðvesturhorninu skil ég alveg það sjónarmið hjá því fólki sem hér býr að það sé ósanngjarnt að setja vegatolla eingöngu á það. Vegna þeirra vona og væntinga hjá íbúum á suðvesturhorninu um þessar framkvæmdir, flýtiframkvæmdir sem voru ræddar á síðasta haustþingi, minni ég hins vegar á að grunnurinn að þeim var sérstakur vegatollur. Það er mjög mikilvægt að við höldum staðreyndum til haga þegar við ræðum málin á annað borð hér á þinginu.