139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

framkvæmdir í vegamálum á Suðvesturhorninu.

523. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og tek undir það sem sagt var áðan, mér finnst ansi klént að ekki sé hægt að ræða um framkvæmdir í samgöngumálum á suðvesturhorninu öðruvísi en að gjaldtökubyssunni sé beint að okkur íbúum á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst það ekki boðlegt. Ég vil meina að það sé almenn samstaða í þessum þingsal um að vilja ekkert sérstaklega fara þá leið í samgönguframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu.

Síðan hvet ég hæstv. ráðherra áfram af því að nú stendur yfir vinna við fjárlagafrumvarpið sem verður lögum samkvæmt lagt fram 1. október þessa árs. Um leið verður unnin ákveðin vinna í tengslum við samgönguáætlun. Ég hvet hæstv. innanríkisráðherra til að sýna hinn pólitíska vilja í verki og reyna að hækka framlag til nýframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Það gengur ekki að þetta framlag sem við tosuðum hér af veikum mætti upp í 20%, nýframkvæmdaféð, sé núna komið niður í tæp 10% á síðustu tveimur árum. Hin pólitíska forgangsröðun innanríkisráðherra er greinilega að halda því hlutfalli áfram. Mér finnst það miður og hvet hann þess vegna til dáða því að hann veit að hann getur fengið stuðning þingmanna til að efla og auka samgöngur og koma með aðrar lausnir en gjaldtöku.

Að öðru leyti þakka ég fyrir ærleg svör hjá innanríkisráðherra í þessu máli.