139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

framkvæmdir í vegamálum á Suðvesturhorninu.

523. mál
[16:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég talaði við formenn tveggja stéttarfélaga í morgun, annars vegar formann Félags fangavarða sem talaði um aukið álag í fangelsunum og þörfina á að ráða fleiri þar til starfa og hins vegar formann Landssambands lögreglumanna sem hafði uppi svipaðan málflutning og kvartaði yfir niðurskurði á þessum sviðum. Við þekkjum niðurskurðinn í menntakerfinu, í heilbrigðiskerfinu og í velferðarkerfinu almennt. Þegar menn tala núna eins og að hér séu allar pyngjur fullar og það skorti bara viljann hjá stjórnvöldum til að ráðast í stórframkvæmdir upp á tugi milljarða þykir mér það ansi ódýr málflutningur. (Gripið fram í: Selja flugvöllinn.)

Ég hef ekki sagt að þetta væri spurning um vegatolla eða ekkert. Ég rakti í svari mínu framkvæmdir sem þegar standa yfir á Suðurstrandarveginum, hvað er í bígerð uppi á Sandskeiði, nefni það sem dæmi, framkvæmdir sem kosta milljarða, hvað er í undirbúningi við Rauðavatnið, og framkvæmdir hefjast senn við tvöföldun Reykjanesbrautar. Þetta eru miklar framkvæmdir á suðvesturhorninu. Það er ekkert verið að stilla dæminu svona upp. Við erum hins vegar að tala um að ef menn ætla að ráðast í flýtiframkvæmdir sem Alþingi samþykkti sem slíkar, þessi salur, upp á tugi milljarða verða menn að gjöra svo vel og vera sjálfum sér samkvæmir og skoða hvað það var nákvæmlega sem þeir samþykktu sjálfir. Ef fólk sættir sig ekki við þetta — og það skil ég mjög vel, ég hef verið í þeim hópi sem hefur verið efasemdafullur — (Gripið fram í.) gerum við þetta öðruvísi. Þá endurskoðum við áform okkar og könnum hvort við getum gert hlutina á hagkvæmari og ódýrari máta og sett þá inn í annað ferli hvað tímasetningu snertir. Það er þetta sem ég tala fyrir og við munum (Forseti hringir.) að sjálfsögðu ræða við alla hlutaðeigendur.