139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

beiting reiknilíkans við fjárveitingar til framhaldsskóla.

506. mál
[17:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Málefni grunnskóla og reyndar skólakerfisins alls eru mjög til umræðu þessi dægrin sakir niðurskurðar á fjárframlögum til nánast allra ef ekki allra skólastiga. Nú er það svo að við teljum okkur búa í velferðarsamfélagi þar sem áhersla er lögð á að hlúa að menntun barna og velferð þeirra að öðru leyti, svo sem er varðar heilsugæslu og umönnun. En mjög hefur verið misjafnlega skipt til þessara þátta í kerfinu og svo er enn. Aðstæður í skólahaldi hringinn í kringum landið eru gerólíkar frá einum stað til annars. Þess vegna er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort hægt sé að nota eina reikningsaðferð, í ráðuneyti í pósthólfi 101 Reykjavík, hringinn í kringum landið við að úthluta fjármagni til þessa mikilvæga málaflokks, hvort heldur skólinn, í þessu tilviki framhaldsskóli enda á ríkið í hlut, er 150 manna eða tífalt stærri, 1.500 manna eins og allnokkrir framhaldsskólar á landinu eru mannaðir.

Það er mikilvægt að þessir hlutir séu uppi á borðum nú um stundir því að mjög hart er gengið fram í aðhaldskröfu gagnvart framhaldsskólum um allt land og er mjög misjafnt hvernig þessir skólar geta mætt þeirri hagræðingarkröfu sem vokir yfir þeim. Ég spyr því hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þeirrar eðlu spurningar hvort hægt sé að beita sama reiknilíkani við fjárveitingar til fjölmennustu og fámennustu framhaldsskóla landsins. Aðhaldskrafan hjá mörgum fámennustu skólunum er nú orðin með þeim hætti að þar þurfa ráðamenn að spyrja sig hvort skera eigi burt eitt af grunnfögunum. Menn eru jafnvel farnir að velta fyrir sér hvort þar eigi að vera stærðfræði eða íslenska, svo langt er seilst í niðurskurði sem er til kominn af ástæðum sem við þekkjum öll og verður í sjálfu sér að bregðast við ef við ætlum að ná endum saman í þjóðarbúskapnum.

Stórir skólar eiga eðli málsins samkvæmt auðveldara með að taka á sig ýmiss konar hagræðingarkröfu. Það er því jafnframt spurning hvort taka eigi eðlilegt tillit til þeirra skóla sem erfiðast eiga með að taka á sig hagræðingarkröfuna við þær aðgerðir sem hafa verið í gangi og verða ef til vill áfram.