139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

beiting reiknilíkans við fjárveitingar til framhaldsskóla.

506. mál
[17:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér á sér stað og málshefjanda fyrir að taka hana upp. Hæstv. ráðherra sagði að alltaf mætti deila um úthlutun fjármagns og ég tek undir það. Það er mjög mikilvægt að jafnræðis sé gætt milli þeirra stofnana og þeirra skóla sem verða fyrir niðurskurði.

Nú vill þannig til að í skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ríkisreiknings ársins 2009 kemur fram að húsaleiga framhaldsskóla er um helmingur af öðrum útgjöldum en launaútgjöldum. Á árinu 2009 voru samningar um leigu á húsnæði endurnýjaðir og leigugjaldið hækkað verulega.

Það kemur líka fram í þessari skýrslu að ekki voru allir skólameistarar tilbúnir að taka á sig þessa verðhækkun og það má skilja á skýrslunni að bæði fyrir árið 2009 og árið 2010, af því að skýrslan er gefin út í desember 2010, hafi ekki allir skólar viðurkennt þessa hækkun og ekki tekið þátt í að greiða hana. (Forseti hringir.) Þá er það spurning mín til hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að ráðuneytið lætur það viðgangast að sumir taki á sig hækkanir en aðrir ekki?